Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

600 börn og kennarar í skimun í Sunnulækjarskóla í dag

08.10.2020 - 08:37
Mynd: Árborg / Árborg
Heilbrigðisstofnun Suðurlands skimar í dag 600 manns í Sunnulækjarskóla á Selfossi fyrir kórónuveirunni, 550 nemendur og 50 kennara. Lögregla aðstoðar við skipulag, skimunin hófst nú klukkan hálfníu og vonast er til að hægt verði að ljúka henni fyrir fjögur.

Birgir Edwald skólastjóri er ekki einn þeirra sem þarf að fara í skimun í dag. Hann segir að hópurinn hafi allur verið í sóttkví í vikunni eftir að þrír greindust sem höfðu verið í skólanum.

„Það hefur ekkert smit átt sér stað innan skólans enn sem komið er svo vitað sé, og það er það sem við erum í rauninni að kanna,“ útskýrði Birgir í Morgunútvarpinu á Rás 2.

„Þetta er ansi umfangsmikið verkefni. Við erum í raun að búast við eitthvað á annað þúsund manns til okkar í dag, því að börnin koma náttúrulega með foreldrum, þannig að 550 börn eru líklega hátt í 1100 manns, og svo starfsmenn þar að auki,“ segir skólastjórinn.

„Hefur mikil áhrif á samfélagið í kringum okkur“

Nokkur umræða hefur verið um að kennurum og öðru skólastarfsfólki finnist það sumt hvert berskjaldað gagnvart veirunni, vegna þess að yfirvöld hafi ekki gripið til takmarkana þar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur rökstutt þetta með þeim hætti að börn í leik- og grunnskólum smiti mjög lítið út frá sér og því sé ekki ráð að vera með mjög íþyngjandi aðgerðir gagnvart þeim og foreldrum þeirra. Á þetta hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sömuleiðis bent.

„Ég skil þetta mætavel,“ segir Birgir aðspurður. „Ég á reyndar finnst mér stundum alveg nóg með mínar eigin ákvarðanir, þannig að ég er í rauninni mjög feginn þríeykinu og ráðherrum að taka þessar ákvarðanir með yfirveguðum hætti – síðan vinnum við eftir því skipulagi,“ segir hann.

„Ég skil vel að það að halda úti skólastarfi er mjög mikilvægt svo að samfélagið gangi. Við finnum það þegar við grípum til svona umfangsmikilla aðgerða eins og við gerum í dag, að það hefur mikil áhrif á samfélagið í kringum okkur.“