Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

23 á Landspítalanum - 94 innanlandssmit

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Sjúklingum með COVID-19 á Landspítalanum heldur áfram að fjölga. Þeir voru 20 í gærkvöld en eru nú orðnir 23, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. Ekki hefur fjölgað á gjörgæsludeild, þar eru áfram fjórir inniliggjandi þar af þrír í öndunarvél. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu greindust 94 með kórónuveirusmit innanlands í gær.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglstjóra, staðfestir við fréttastofu að smitin séu yfir hundrað. 94 hafi greinst innanlands og af þeim voru aðeins 40 í sóttkví.   8 reyndust vera með kórónuveiruna á landamærunum.  Mikill meirihluti smitanna var á höfuðborgarsvæðinu.  

Fyrir tveimur dögum voru nýgreind smit nærri hundrað og höfðu þá ekki verið fleiri síðan í vor þegar 106 greindust á einum og sama deginum.

Alls voru 795 í einangrun með virkt smit í gær og yfir fjögur þúsund í sóttkví. Þessar tölur hækka umtalsvert í dag. Ný smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú yfir 180 og aðeins sex lönd í Evrópu eru með hærra nýgengi.

Hertar aðgerðir hafa tekið gildi fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem yfir 90 prósent smita síðustu daga hafa verið þar. Þar eru samkomutakmarkanir bundnar við 20, veitingastöðum er gert að loka klukkan 21 og líkamsræktarstöðvum og sundstöðum hefur verið lokað.

Fram kemur í Fréttablaðinu í morgun að þrír ráðherra hafi haft ákveðnar efasemdir um þær aðgerðir sem kynntar voru í vikunni; Guðlaugur Þór Þórðarson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra. Það hafi aftur á móti dregið úr efasemdum þeirra þegar faraldurinn fór á fullt skrið.

Upplýsingafundur verður klukkan 11 í dag og verður hann sýndur beint á ruv.is, RÚV og honum útvarpað á Rás 2. 

Á tíunda tímanum í morgun sendi ríkislögreglustjóri svo frá sér tilkynningu þar sem tilmæli embættisins voru ítrekuð. Tilkynninguna má lesa hér að neðan.

 

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ítreka tilmæli sín vegna aukins fjöldi smita einkum á höfuðborgarsvæðinu, vegna Covid-19 síðustu daga og aukið hafa líkur á veldisvexti í faraldrinum. Búast má við að tölur um fjölda smita verði háar næstu daga. Tilmælin eru;

Hvetjum alla á höfuðborgarsvæðinu til að vera eins mikið heimavið og kostur er.

Ekki vera á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu nema nauðsyn sé til.

Verjum viðkvæma hópa og takmörkum heimsóknir til einstaklinga í áhættuhópum eins og hægt er.

Takmörkun fjölda í búðum – einn fari að versla frá heimili ef kostur er

Hvatt er til þess að þeir sem standi fyrir viðburðum á höfuðborgarsvæðinu fresti þeim

Klúbbar, kórar, hlaupahópar, hjólahópar og aðrir hópar sem koma saman geri hlé á starfsemi sinni.

Allir staðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningur á erindi herði allar sínar sóttvarnaraðgerðir, takmarki eins og hægt er fjölda, tryggi að allir geti sótthreinsað hendur við innganga, sótthreinsi snertifleti og gæti vel að hægt sé að virða fjarlægðarmörk.

Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.

Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.

Allir sem finni fyrir hinum minnstu einkennum haldi sig heima, fari í sýnatöku og líti á að þeir séu í einangrun þar til neikvæð niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir.

 

 
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV