Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vilja banna sölu á orkudrykkjum til ungmenna

07.10.2020 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matvælastofnun ætlar að leggja það til við stjórnvöld að sala á orkudrykkjum til barna yngri en 16 ára verði bönnuð. Neysla íslenskra ungmenna í 8. til 10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín er með því mesta sem þekkist í Evrópu, samkvæmt nýrri rannsókn.

Áhættumatsnefnd skilaði nýverið skýrslu til Matvælastofnunar um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í 8. - 10. bekk á koffíni í drykkjarvörum. 

„Niðurstaða nefndarinnar er að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í fyrri rannsóknum og gefi tilefni til aðgerða til að lágmarka neyslu ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín og fyrirbyggja neikvæð áhrif á heilsu þeirra,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Í skýrslunni kemur fram að neysla íslenskra ungmenna í 8. til 10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín sé með því mesta sem þekkist í Evrópu. Varfærið mat sýni að miðað við norsk ungmenni sé neysla íslenskra ungmenna allt að því tvisvar sinnum meiri hjá meðalneytendum.

Álag á hjarta- og æðakerfið

Þá sýni niðurstöðurnar að um 30% íslenskra ungmenna í 8. bekk neyti orkudrykkja sem innihalda koffín, og að neyslan aukist með aldri og sé um það bil 50% meðal ungmenna í 10. bekk.

„Varfærið mat sýnir að hjá a.m.k. 30% ungmenna í 8.-10. bekk sem neyta orkudrykkja er koffínneysla yfir þeim mörkum sem talið er að valdi neikvæðum áhrifum á svefn (neysla koffíns yfir 1,4 mg/kg líkamsþyngdar á dag). Til samanburðar innbyrða aðeins 5% ungmenna, sem ekki drekka orkudrykki, koffín yfir þessum mörkum,“ segir í skýrslunni.

„Framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla ungmenna í 8.-10. bekk sé meiri en æskilegt er, hafi neikvæð áhrif á svefn og andlega líðan þeirra og sé yfir því magni sem valdið getur hækkun á blóðþrýstingi og þar með auknu álagi á hjarta- og æðakerfið.“

Á grundvelli áhættumatsins hyggst Matvælastofnun leggja til breytingar á reglum sem varða koffín í drykkjarvörum og aukna fræðslu með það að markmiði að takmarka aðgengi ungmenna að koffínríkum orkudrykkjum. Dóra S. Gunnarsdóttir, sviðsstjóri matvælaöryggis og neytendamála hjá Matvælastofnun, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að það verði lagt til við stjórnvöld, að sala á orkudrykkjum til barna yngri en 16 ára verði bönnuð.

Tilkynning Matvælastofnunar.