Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tuttugu á Landspítalanum þar sem álagið eykst ört

07.10.2020 - 19:19
Mynd: RÚV / RÚV
Álag á Landspítalann eykst ört og sífellt fjölgar í hópi þeirra sem þurfa læknisaðstoð vegna kórónuveirunnar. Smit hjá starfsfólki spítalans hefur sett strik í reikninginn. 

Álag á Landspítalann eykst ört og sífellt fjölgar í hópi þeirra sem þurfa læknisaðstoð vegna kórónuveirunnar. Smit hjá starfsfólki spítalans hefur sett strik í reikninginn. 

87 greindust með kórónuveiruna hér á landi í gær, um helmingur var í sóttkví. 795 eru nú í einangrun með sjúkdóminn, en hátt í 200 smit hafa greinst á einungis síðustu tveimur dögum.  Um 70 þeirra smita má rekja til hnefaleikastöðvar í Kópavogi. 

Nú liggja 20 á Landspítalanum, þar af eru fjórir á gjörgæslu og þrír í öndunarvél.  Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, býst við að innlögnum fjöldi á næstu dögum. 

„Þessi stöðugi vöxtur í fjölda tilfella undanfarið leiðir náttúrulega til fjölgunar innlagna og við búumst við því að þeim muni fjölga á næstu dögum. Þetta er náttúrulega alvarleg staða fyrir okkur og einkum og sér í lagi því þetta setur aukið álag á göngudeildina okkar.“

COVID-göngudeildin gegnir lykilhlutverki í því að minnka álag á heilbrigðiskerfið í farsóttinni. Þar er grannt fylgst með þeim sem smitast af veirunni svo hægt sé að grípa fyrr inn í og koma í veg fyrir innlögn. 

Hátt í þrjátíu starfsmenn bráðamóttökunnar eru í sóttkví eftir að starfsmaður greindist með veiruna. Margir starfsmenn spítalans hafa sýkst í þriðju bylgjunni, sem hefur sett strik í reikninginn. 

„Tvímælalaust hefur það gert það og það hefur leitt til aukinna verkefna fyrir alla viðbragðsaðila innan spítalans og náttúrulega lagt skorður á starfsemina.“

Már segir að enn þurfi að bíða í einhverjar vikur áður en árangurs hertra aðgerða verður vart -  en minni hraði í samfélaginu í fyrstu bylgju faraldursins minnkaði álag á gjörgæsludeild verulega.

„Gjörgæsludeildin er fremur illa stödd núna, ekki kannski vegna COVID-19, heldur vegna þess að mörg önnur veikindi eiga sér stað í samfélaginu sem við lentum ekki í í fyrstu bylgjunni. Þannig að við erum að reyna að efla hana eins og við getum og við höfum svigrúm til að fara upp í nokkuð mörg stæði til viðbótar en það kostar það að við þurfum að draga úr skurðstofastarfsemi á móti.“