Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Telur ríka ástæðu fyrir Akureyringa að vera á varðbergi

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Yfirlæknir telur hættu á að smitum fjölgi á Akureyri næstu daga og full ástæða sé fyrir bæjarbúa að vera á verði. Fjöldi fólks kom saman á listahátíð og Dekurdögum á Akureyri um helgina og nær uppbókað var á einu stærsta hóteli bæjarins.

Rúmlega 100 af þeim tæplega 800 sem eru í einangrun vegna veirunnar eru utan höfuðborgarsvæðisins, en staðsetning smita fer eftir lögheimili. Fæst smit eru skráð á Austurlandi, einungis eitt, þrjú eru á Norðurlandi vestra og fimm á Norðurlandi eystra.  

Hópsmit kæmi umdæmislækni ekki á óvart

Forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sammælast um að mikið sé tekið af sýnum, en á Austurlandi eru tekin um 20-30 einkennasýni á dag. Á Vestfjörðum eru þau um 20, sem er svipað og í fyrstu bylgjunni, eru þar nú 14 í einangrun.

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, segir að það kæmi henni ekki á óvart ef það kæmi upp hópsmit; „Út af því að í síðasta faraldri þá var þetta mjög lúmskt. Maður var að leita og síðan fann maður smit inn á milli þannig að þetta er bara mjög lúmskur sjúkdómur og við erum bara á tánum.“

Fólk á faraldsfæti um liðna helgi

Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslunnar á Akureyri, segir fleiri sýni tekin nú en í vor, en um 100 sýni eru tekin að meðaltali á degi hverjum. Engin ástæða sé til að telja að það séu dulin smit á Akureyri miðað við fjölda sýna, en eftir síðustu helgi sé rík ástæða til að vera á varðbergi. Mikill ferðamannastraumur í bænum hafi ekki farið framhjá neinum og örugglega hafi líka verið töluvert um það að Akureyringar væru á faraldsfæti.

Mikið að gera í verslunum og hótel vel bókuð

Það voru margir sem gerðu sér dagamun um helgina enda margt um að vera, eins og A! gjörningalistahátíð og Dekurdagar, sem hafa verið haldnir árlega í bænum síðan 2008 og hétu þá Dömulegir dekurdagar. Verslunareigandi segir að það hafi verið mjög mikið að gera alla helgina. Þá var nánast fullbókað á einu stærsta hóteli bæjarins. „Þetta er bara áhættuþáttur og það er mikilvægt að fólk átti sig á því,“ segir Jón Torfi. Eins segir hann heilbrigðisstarfsfólk líka þurfa að vera vakandi og leita veiruna uppi ef hægt er. 

Þannig að þú telur líkur á að smitum fjölgi hérna næstu daga? „Ég tel hættu á því. Því miður þá þarf oft mjög lítið á viðkvæma staði til að fá mikla dreifingu á skömmum tíma,“ segir Jón Torfi.