Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skynsamleg skuldsetning

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Breyta þarf lögum um opinber fjármál til að hægt sé að steypa þjóðinni í nógu miklar skuldir til að bregðast við Covid-kreppunni. Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir að það hafi í raun verið eina leiðin til að forðast alvarlegt samfélagstjón.

 

Það blæs ekki byrlega fyrir þjóðinni í efnahagsmálum, ef litið er yfir fjárlög og fjármálaáætlun næstu fimm ára. Gert er ráð fyrir nærri þrjúhundruð milljarða króna halla í rekstri hins opinbera á næsta ári. Svo dregur smám saman úr hallanum, þar til hann verður rúmlega 80 milljarðar árið 2025. Það gerir meira en níuhundruð milljarða halla á fimm árum. Það er mikill og langvarandi hallarekstur, og sökudólginn þekkja allir. Covid-faraldurinn geisar um heimsbyggðina, og veldur alls staðar þungum búsifjum.

Friðrik Már segir Íslendinga reyndar í hópi þeirra heppnu: „Ég held að þetta sé nánast óhjákvæmilegt. Þetta er vegna þess að við komum inn í þessa kreppu í mjög góðri stöðu með um 30% skuldir hins opinbera af vergri landsframleiðslu. En þær eiga eftir að tvöfaldast á þessum tíma.“

Lítið skorið niður

Hér áður fyrr hefðu flestir ráðamenn og alþjóðastofnanir boðað mikinn samdrátt og niðurskurð í ríkisrekstri til að bregðast við hallarekstrinum. En nú er komið annað hljóð í strokkinn.

„Við teljum að það myndi einfaldlega auka atvinnuleysið, dýpka kreppuna ef við færum í harkalegan niðurskurð á þessum tíma,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á dögunum. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði á sömu nótum í sumar og sagði að það yrði ekki leiðin út úr þessari kreppu að ráðast í mikinn niðurskurð, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði á dögunum að það væru mistök af hálfu allra að boða mikinn niðurskurð ofan í stóra verkefni vetrarins, sem væri atvinnuleysi.

Alþjóðleg sveifla

Þessi stefna er ekkert einsdæmi hér á landi. Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD hafa hvatt ríkar þjóðir heims til að hætta að hafa áhyggjur af opinberum skuldum, og notfæra sér í staðinn lága vexti til að fjárfesta í innviðum, störfum og umhverfisvænni tækniþróun, til að koma hagkerfum heimsins aftur í gang.

„Það er vegna þess að skaðinn sem yrði ef ríkið væri til dæmis að reyna að halda jöfnuði yrði alveg gríðarlegur,“ segir Friðrik Már. „Þá erum við að tala um samfélagslegan skaða.“

Sem þýddi enn meira atvinnuleysi, gjaldþrot og fátækt. Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra lausna, og breyta þarf lögum um opinber fjármál til að bregðast við faraldrinum. Í venjulegu ári gilda þær reglur að halli á ríkisfjármálum megi ekki vera meiri en 2 og hálft prósent af vergri landsframleiðslu, og heildarskuldsetning ekki meiri en 30%. Víkja má frá þessum reglum í þrjú ár ef hart er í ári, en nú verða þær aftengdar fram til ársins 2025. 

„Segjum að þetta sé allt yfirstaðið 2023, ef það væri farið í að halda þeim kúrs sem fjármálareglan segir fyrir um þá, þá myndi það þýða mjög erfiða og harða aðlögun, þannig að það er eiginlega óhjákvæmilegt að reyna að jafna það út,“ segir Friðrik Már. „Ég er eiginlega bara sammála þessari stefnumótun. Mér finnst hún býsna skynsamleg.“