Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Selja þrjár Boeing 757 flugvélar

07.10.2020 - 22:39
epa02747627 An SAS Airbus 330 aircraft takes off behind Iceland Airs stranded Boeing 757 aircraft named after the volcano Eyjafjallajokull parked at a remote stand at Arlanda airport north of Stockholm, Sweden, 23 May 2011. The Eyjafjallajokull aircraft is parked at Arlanda, not able to return home, since the ash cloud from the volcano Grimsvotn closed the airports on Iceland 22 May.  EPA/Johan Nilsson SWEDEN OUT
 Mynd: EPA - Scanpix Sweden
Icelandair hefur náð samkomulagi um sölu á þremur Boeing 757-200 flugvélum félagsins. Söluvirði flugvélanna þriggja er um 2,9 milljarðar íslenskra króna en stefnt er að því að ganga endanlega frá samningum á næstu vikum.

Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að sala vélanna sé í samræmi við áætlun þess um að fækka Boeing 757 vélum í flugflotanum. Tvær vélanna voru framleiddar árið 1994 og ein árið 2000. Eftir afhendingu verður þeim breytt úr farþegaflugvélum yfir í fraktvélar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að salan sé jákvætt skref fyrir félagið nú þegar flugrekstur sé í lágmarki. Félagið búi enn yfir öflugum flugflota sem nýtist vel þegar ferðatakmörkunum verður aflétt og eftirspurnin eftir flugi eykst á ný.

Flugrekstrarstjóri Icelandair sagði í síðustu viku líklegt að flugbanni á Boeing Max-vélunum verði aflétt í næsta mánuði og að flugfélagið reikni með því að taka vélarnar aftur í notkun snemma á næsta ári. Icelandair var með sex Max-vélar í notkun þegar þær voru kyrrsettar á sínum tíma. Félagið ætlar kaupa sex vélar til viðbótar á næstu árum.