Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segjast hraust og vilja fá klippingu í Reykjavík

07.10.2020 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Rakari á Selfossi segir erfitt að flokka viðskiptavini eftir póstnúmerum. Hársnyrtistofum á höfuðborgarsvæðinu er gert að loka næstu tvær vikur, samkvæmt hertum reglum heilbrigðisráðherra. Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina, segir að dæmi séu um að viðskiptavinir biðji um að fá að koma í klippingu þrátt fyrir lokun, vegna þess að þeir séu hraustir.

Sumir virða ekki lokanir

„Ég er búin að vera að fá símtöl frá hársnyrtum í morgun þar sem þau segja að þau viti ekki hvernig þau eigi að bregðast við af því kúnninn er svo frekur að hann ætlar bara að komast að. Fólk spyr hvort það geti ekki fengið að koma með grímu, það sé allt í lagi með það. Þannig að viðskiptavinirnir eru ekki að virða að búið sé að loka fyrirtækjunum,“ segir Lilja Kristbjörg. 

Þá séu dæmi um að fólk sé að vinna heima hjá sér, þvert á reglur. „Það er ekki hægt að gera neitt í því af því að friðhelgi einkalífsins er yfir öllu hafið. Það er ekki hægt að kalla til lögreglu eða skattinn eða neitt slíkt,“ segir hún. 

Erfitt að flokka fólk eftir póstnúmerum

Hársnyrtistofur í nágrenni við höfuðborgarsvæðið, á Akranesi, Selfossi, Hveragerði og Reykjanesi hafa margar beðið fólk af höfuðborgarsvæðinu um að koma ekki til þeirra. Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi, segir þessa stöðu að mörgu leyti óþægilega. „Það er ekki gott fyrir okkur að vera í lögregludjobbi og meta hverjir mega koma og hverjir ekki. Mér finnst í sjálfu sér frekar erfitt að flokka fólk eitthvað niður úr hvaða póstnúmeri það kemur. Þetta er flókið í framkvæmd. Það eru margir hér sem vinna í Reykjavík og margir úr Reykjavík sem koma hingað að vinna,“ segir hann.

Kjartan segir að fólk verði að ákveða sjálft hvort það treysti sér í klippingu eða ekki. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn sé ég ekki aðferðina sem ég á að nota til þess að flokka fólk eftir því hvar það býr. Ég held það verði allir að reyna að finna þetta hjá sjálfum sér.“

Í lagi að hárið sé ekki í lagi í nokkra daga

Lilja Kristbjörg segir að það hafi komið mörgum á óvart að þurfa að skella í lás þegar hertar aðgerðir voru kynntar í gær. Það sé ekki komin reynsla á það hvort fólk leiti frekar út á land í klippingu. „Ég ætla nú að vona það að fólk fari ekki að fara út á land til að fá klippingu bara af því það getur ekki beðið í nokkra daga. Við eigum öll að vera heima hjá okkur. Þannig það er í lagi að hárið sé ekki alveg eins og við viljum hafa það akkúrat þessa daga þó við viljum vera sæt heima hjá okkur líka.“

Mynd með færslu
Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina.