Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ömurlegt að senda fólk í sóttkví og geta smitað aðra

07.10.2020 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Magnússon - rúv
Það er ömurlegt að senda fólk í sóttkví og eiga á hættu að smita aðra. Þetta segir kona sem greindist með COVID-19 eftir að hafa fyrst fengið neikvætt svar úr sýnatöku og verið nánast einkennalaus. 

3.172 hafa nú greinst með kórónuveiruna frá því að faraldurinn kom hingað til lands. Sumir veikjast alvarlega en flestir finna aðeins fyrir vægum flensulíkum einkennum, líkt og Helga Lóa Kristjánsdóttir.

„Þetta byrjaði nú þannig að pabbi minn veikist. Hann fer í sýnatöku, mælist neikvæður. Og svo verður hann veikari og veikari. Og þar sem hann var búinn að fá neikvætt sýni þá fór ég til hans og var aðeins að hjúkra honum,“ segir hún.

Fékk fyrst neikvæða niðurstöðu

Faðir Helgu Lóu var á endanum greindur með COVID-19 og hún fór í kjölfarið í sóttkví og sýnatöku, sem var neikvæð. Fyrir tilviljun fór hún í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu daginn eftir að hún losnaði úr sóttkví. Þá kom í ljós að hún var með COVID-19 eftir allt saman. 

„Þetta var algjört sjokk. Þarna á þessum tímapunkti var ég alveg einkennalaus, búin að vera þessa 14 daga í sóttkví,“ segir Helga Lóa.

Tilvlijanakennd sýnataka skipti sköpum

Það hafi verið slæm tilfinning að átta sig á að hún hefði getað smitað aðra. 

„Hún var bara ömurleg. Hún var hræðileg. Mér fannst þetta vera mér að kenna. Og ef ég hefði ekki farið í þessa tilviljanakenndu sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu sem ég gerði daginn eftir sóttkvína, þá hefði ég aldrei vitað að ég hefði verið með þetta og hefði bara verið valsandi um og mögulega getað smitað,“ segir hún.

„Galin pæling“ að fá veiruna bara til að ljúka því af

Á upplýsingafundi almannavarna á mánudag talaði Alma Möller landlæknir um að svokölluð farsóttarþreyta hefði myndast. Borið hefði á því að fólk segðist vilja fá veiruna til að ljúka henni af og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að smitast. Sagði Alma að það fólk væri að taka mikla áhættu. Meðal annars vegna þess að þó að fólk sé ungt og hraust geti það veikst alvarlega. Eins sé lítið vitað um eftirköst og langvinn einkenni veirunnar. 

Helga Lóa segir ekki áhættunnar virði að passa sig ekki.

„Alls ekki. Þetta er galin pæling. Þó ég hafi verið lítið veik og heppin með það þá er ég samt alveg að glíma við litla hluti, kúlur á hnúunum og púlsinn getur rokið upp úr öllu valdi. Allskonar svona hlutir sem er bara mjög óþægilegt að vita ekki hvað er.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV