Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mótmæla orðum ráðherra um að búskapur sé lífstíll

07.10.2020 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Bændasamtök Íslands mótmæla harðlega orðum Kristjáns Þórs Júlíussonar sem hann lét falla í ræðustól Alþingis í gær. Þar sagði hann að sauðfjárbændir segi búskapinn spurningu um lífstíl frekar en afkomu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bændasamtökunum. 

„Það er alvarlegt mál ef ráðherra landbúnaðarmála fylgist það illa með þróun mála að hann telji réttmætt að kalla atvinnugreinina einhverskonar áhugamál, lífsstíl eða með öðrum orðum tómstundagaman. Það lýsir kannski best áhugaleysi ráðherrans á málaflokknum. Bændum er svo sannarlega ekki sama um afkomu sína og hafa lengi kallað eftir því að stjórnvöld láti það til sín taka, með takmörkuðum viðbrögðum.“ segir í tilkynningunni.

Afkoma bænda og afurðaverð hefur verið talsvert til umfjöllunar. Afurðastöðvar gáfu sauðfjárbændum ekki út verð fyrr en slátrun var hafin og þá hefur verð til bænda fyrir nautakjöt einnig lækkað undanfarið.  

„Afkoma bænda er sannarlega áhyggjuefni. Afurðaverðsþróun í mörgum greinum, einkum kjötframleiðslu, er neikvæð vegna efnahagsþrenginga, markaðsþróunar og síaukins innflutnings sökum þess hvað tollvernd hefur rýrnað - ekki síst vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda. Bændasamtök Íslands skora á ráðherrann og ríkisstjórnina alla að ráða bót á því. Yfirlýsingar eins og komu fram í gærkvöldi hjá ráðherra landbúnaðarmála, eru skaðlegar hvað það varðar.“ segir í tilkynningunni.