
Meirihluti starfsmanna Rio Tinto á leið í verkfall
„Niðurstöðurnar eru afgerandi. Þeir sem voru fylgjandi því að fara í verkföll voru um 80% af þeim sem greiddu atkvæði,“ segir Kolbeinn. „Félagsmenn stéttarfélaganna sem samþykktu verkfallsboðunina hefja því skærur núna 16. október, á föstudaginn. kröfur starfsmanna hljóða upp á að launahækkanir séu sambærilegar og samið var um í lífskjarasamningum.“ Ef ekki semst fara sömu starfsmenn í ótímabundið allsherjar verkfall frá 1. desember.
Atkvæðagreiðslunni lauk um hádegisbil í dag. Hjá Hlíf starfa rúmlega 200 í álverinu. 68% af þeim greiddu atkvæði, 80% sögðu já, 12% nei og 6% tóku ekki afstöðu. Alls voru rúmlega 300 á kjörskrá, langflestir hjá Hlíf en fæstir hjá VR. Í álverinu starfa rúmlega 400 manns.
Samningar félaganna hafa verið lausir síðan í byrjun júlí, en samið hafði verið um 24.000 króna launahækkun í mars með þeim fyrirvara að Rio Tinto næði nýjum raforkusamningum við Landsvirkjun fyrir lok júní. Þegar það tókst ekki féllu samningarnir úr gildi og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara.