Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lífstíll að vera bóndi frekar en spurning um afkomu

07.10.2020 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir bændur hafa að mörgu leyti mikið frelsi, þeir hafi valið sér starfið. Hann segir marga bændur segja sauðfjárbúskap vera meiri lífsstíl en spurningu um afkomu.

Þetta kom fram í máli ráðherra á Alþingi í gærkvöld í umræðum um fjármálaáætlun næstu fjögurra ára. Það var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem spurði ráðherra hvernig hann ætlaði að bæta kjör bænda og stuðla að betra verði til neytenda. 

„Talandi um frelsi sem bændur þrá og hafa að mörgu leyti vegna þess einfaldlega að fólk kýs sér atvinnu, kýs sér búsetu. Það er svona fyrsti kosturinn sem að við getum sagt að fólk hafi frelsi um að velja. Ég held að það sé engin goðgá að ætla það menn kjósi af mörgum ástæðum að stunda sauðfjárbúskap. Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtöl við þau, þar sem þeir segja að þetta er meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu.“ sagði Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra á Alþingi í gær.