Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kerfið verði að vera sveigjanlegra og skilvirkara

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson
 Mynd: ruv.is - Ljósmynd
Dómsmálaráðherra segir verkefnið fram undan að svara hratt þeim sem hingað koma og biðja um alþjóðlega vernd, hvort sem þeir fá neikvæða niðurstöðu eða jákvæða. Kerfið verði að vera sveigjanlegra og skilvirkara. Þetta kom fram á Alþingi í morgun en ráðherra hafði tjáð sig um þetta á Alþingi fyrr í vikunni. Þetta er lokadagur umræðu á Alþingi um fyrstu umræðu fjárlaga og fyrri umræðu fjármálaáætlunar sem síðan verður vísað til fjárlaganefndar. 

Í morgun sátu einstaka ráðherrar sem fyrir svörum og fyrst í morgun var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins spurði ráðherra um málefni þeirra sem bíða hér eftir alþjóðlegri vernd en hann spurði ráðherra líka um þetta á mánudag.

Svör ráðherra þá þóttu óljós því hún tók sem dæmi frá öðrum löndum þar sem væru afmarkaðir brottvísunarstaðir þótt slíkt stæði ekki til hér. 

Þorsteinn sagði að Áslaug Arna hefði gefið til kynna í fyrra svari sínu að hún hefði hug á því að koma fyrir afmörkuðum stað fyrir fólk sem til stæði að vísa úr landi. „Til þess að þeir séu sem sagt í öruggu umhverfi og séu ekki hér út um allt og jafnvel í felum,“ sagði Þorsteinn.

Áslaug Arna svaraði að aldrei væri vitað fyrirfram hversu margir leituðu hingað eftir vernd. 

„Kerfið okkar verður að vera undirbúið undir þann fjölda með því að svara hratt þeim aðilum sem fá neikvæða niðurstöðu og þurfa ekki að fá vernd og líka að svara hratt þeim sem að þurfa á vernd að halda svo þeir geti hafið árangursríka aðlögun að samfélaginu fyrr og þetta er verkefnið framundan að kerfið okkar sé bæði sveigjanlegra og skilvirkara,“ sagði Áslaug Arna.