Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hús rýmd og enn hætta á aurskriðum

07.10.2020 - 17:51
Aurskriða í Hleiðargarðsfjalli
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - Ljósmynd
Hús í námunda við Hleiðargarðsfjall í Eyjafirði hafa verið rýmd, þar féll stór aurskriða ofan við bæinn Gilsá 2 í gær og enn er hætta á skriðum. Eyjafjarðarbraut vestari frá Sandhólum hefur verið lokað og einnig frá brúnni yfir Eyjafjarðará við Vatnsenda.

Um er að ræða bæina Gilsá 1 og Gilsá 2  og sumarbústað við Gilsá 2. Aur og grjót nær nú að Eyjafjarðarbraut vestari og er nú þegar farið að ganga yfir veginn, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Lögreglumenn frá lögreglunni á Norðurlandi eystra, ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra og sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun hafa metið aðstæður á svæðinu í dag.

Í tilkynningunni segir að mikið vatnsrennsli hafi verið í skriðusárinu og sé enn. Ekki er útilokað að fleiri skriður geti fallið á svæðinu.