Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heilbrigðisráðherra vill endurskoða sóttvarnalög

07.10.2020 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Heilbrigðisráðuneytið telur ástæðu til að endurskoða og skýra lög um sóttvarnir. Áform um frumvarp þess efnis liggur nú í samráðsgátt stjórnvalda. Sá kafli sem á að endurskoða fjallar um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Þá þurfi einnig að skýra úrræði sem sóttvarnalæknir og ráðherra geta gripið til vegna farsótta.

Í áformum um lagabreytinguna kemur fram að fara þurfi yfir hugtök í lögunum og samræma við alþjóðlaheilbrigðisreglugerðir Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og meta hvort að tiltekin atriði  í reglugerðum eigi betur heima í löggjöf svo sem skipting landsins í sóttvarnaumdæmi og ábyrgð yfirlækna heilsugæslu. Þá þarf að yfirfara verkefni sóttvarnalæknis og sóttvarnaráðs og samræma þau.

Sagt er að nauðsynlegt sé að yfirfara gildandi lög í ljósi þeirrar reynslu sem hefur skapast hér á landi síðustu mánuði. Gildandi lög og reglur hafi almennt reynst vel í baráttunni við heimsfaraldurinn en rétt sé að skerpa á og skýra löggjöfina miðað við reynslu síðustu mánaða.  Þá liggi fyrir að hugtök í lögunum eru ekki að öllu leyti í samræmi við þau hugtök sem notuð eru í framkvæmd í dag auk þess sem hugtök eru ekki sérstaklega skýrð í lögunum. Í framkvæmd sé til að mynda notast við orðið sóttkví en í lögunum er notað hugtakið afkvíun sem er einnig notað í íslenskri þýðingu alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar yfir enska orðið „quarantine“.

Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skrifa drög að frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum. Drögunum skal skila til ráðherra fyrir 1. desember. Starfshópurinn er skipaður einstaklingum frá heilbrigðisráðuneytinu, embætti landlæknis, dómsmálaráðuneytinu, sóttvarnalækni, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og embætti ríkislögreglustjóra.

Ráðherra ákvað að skipa starfshóp í þessum tilgangi þar sem í ljósi reynslu af yfirstandandi heimsfaraldri hefur það sýnt sig að mikilvægt er að ólíkir aðilar og hinar ýmsu stofnanir komi að ákvörðunum um opinberar sóttvarnaráðstafanir. 

Málið má skoða í samráðsgátt stjórnvalda hér.