
Hallarekstur skynsamlegur á samdráttartímum
Efnahagshorfur hafa farið versnandi, að mati Seðlabankans, á síðustu tveimur mánuðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Peningastefnunefnd bankans kynnti í morgun þá ákvörðun að halda stýrivöxtum óbreyttum og verða þeir því áfram eitt prósent.
Helstu greiningaraðilar hafa spáð því að samdráttur á þessu ári verði einn sá mesti í yfir hundrað ár.
Gert er ráð fyrir rúmlega 260 milljarða halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Uppsafnaður halli gæti numið 900 milljörðum á næstu fimm árum.
„Ég tel að það sé mjög skynsamlegt núna að nota ríkisfjármálin til þess að bregðast við þessum samdrætti sem við horfum núna fram á í vetur. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort að, þegar samdrátturinn gengur yfir, hvort að ríkið þurfi ekki að bregðast nokkuð hraðar við að koma ríkisfjármálum í jafnvægi,“ segir Ásgeir.
Veiking krónunnar hefur ýtt undir verðhækkanir og mælist verðbólga nú 3,5 prósent. Ásgeir telur þó líklegt að verðbólgan minnki verulega strax í byrjun næsta árs.
„Eftir jól þá erum við með efnahagslíf sem er í samdrætti, mikið atvinnuleysi, það er eiginlega vart hugsanlegt að við getum verið að sjá mikla verðbólgu á þessum samdráttartímum. Þannig að við búumst við því að hún gangi tiltölulega nokkuð hratt niður,“ segir Ásgeir.