Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Frábærir leikarar hífa upp leikrit í meðallagi

Mynd: Hörður Sveinsson / Þjóðleikhúsið

Frábærir leikarar hífa upp leikrit í meðallagi

07.10.2020 - 08:52

Höfundar

„Stóra spurningin fyrir sýningar eins og þessar sem hvíla á herðum tveggja leikara, og byggjast á plotti sem virðist í grófum dráttum næfurþunnt er hvort sagan og leikurinn gangi upp,“ segir Snæbjörn Brynjarsson, gagnrýnandi, um leiksýninguna Upphaf í Þjóðleikhúsinu.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Það er komin hánótt og stóru partýi er nýlokið, bjórdósir og vínflöskur eru á víð og dreif um stofuna og opna eldhúsið í sæmilega stórri íbúð í Vesturbænum. Allir gestirnir eru farnir með leigubíl heim nema einn þeirra, Daníel, stendur í dyragættinni og virðist ekki vita hvort hann er að koma eða fara. Hann og eigandi íbúðarinnar hafa verið að gefa hvort öðru auga allt kvöldið og það virðist stefna í að hann gisti, en hann skortir bæði sjálfstraust og ákveðni til að ganga alla leið og í opinn faðm konunnar.

Þannig hefst Upphaf, leikrit eftir breska höfundinn David Eldridge sem segir frá tveimur manneskjum í leit að ást og var frumsýnt nýverið í Þjóðleikhúsinu. Verkið var fyrst sýnt  fyrir um þremur árum, og telst því nokkuð nýlegt, en um er að ræða tvíleik með einu karlhlutverki, það er Daníel, og einu kvenhlutverki, Laura í ensku útgáfunni, en Guðrún í íslenskri þýðingu Auðar Jónsdóttur. Það eru Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson sem taka að sér þau hlutverk, en María Reyndal leikstýrði.

Feimni og framtaksleysi Daníels drífur áfram fyrstu mínúturnar í verkinu og Hilmar, sem er mjög fær grínleikari, fer á kostum. Það er spenna í loftinu og honum og Kristínu Þóru tekst að gera vandræðalegar viðreynslur hennar við þennan glórulausa gaur sprenghlægilegar. Þessi eltingaleikur um stofuna fer marga hringi og brátt rennur upp fyrir áhorfendum að Daníel er sennilega alveg ófær um að ákveða hvort hann vilji vera eða fara og Guðrún, óþreyjufull og spólandi gröð fer að grípa til örþrifaráða, en um leið uppgötvum við meira um þessar brothættu manneskjur, og svona til að súmmera upp innihald verksins án þess að segja of mikið um atburðarásina þá fjallar það um tvær manneskjur í leit að ást og hamingju, sem mæta hindrunum, hindrunum sem eru oft þeirra eigin sköpun.

Búningar í sýningunni eru í höndum Margrétar Einarsdóttur og um sviðsmynd sá Finnur Arnar Arnarsson, og það er ekki margt um búninga og sviðsmynd að segja þegar sviðsetningin er jafn raunsæ og mikið í samtímanum og þessi, en íbúðin og búningarnir eru sæmilega trúverðugir. Daníel lítur út eins og fertugur maður úr Kópavoginum og Guðrún lítur út eins og fertug kona úr Vesturbænum, og ekkert slær mann sem falskt eða óraunverulegt. Tónlistin sem spiluð var í upphafi sýningar var kunnguleg, gömul ballög frá níunda áratugnum sem fólki á þessum aldri gæti þótt nostalgísk, en það er ekki hægt að segja að væmin tónlist Úlfs Eldjárns hafi verið sérstaklega eftirtektarverð í sýningunni, þó svo hún hafi eflaust ekki angrað neinn heldur.

Stóra spurningin fyrir sýningar eins og þessar sem hvíla á herðum tveggja leikara, og byggjast á plotti sem virðist í grófum dráttum næfurþunnt er hvort sagan og leikurinn gangi upp. Frammistaða Kristínar Þóru og Hilmars er í fremsta flokki, þau tvö fara á kostum saman, og tímasetningar þeirra eru óaðfinnanlegar. En þó svo frammistaða þeirra sé alltaf jöfn út sýninguna þá fjarar smám saman út áhugi manns á plottinu, sem reynist heldur langdregið undir lokin. Mögulega hefði verkið þurft að fara í aðrar áttir, kafa dýpra í baksögu persónanna og skipta um gír, frekar en að reyna að keyra það á sömu spennu, hvort þau nái saman eða ekki, út alla sýninguna. Þó svo spennan sé mikil í upphafi þá er Upphaf verk sem hefði getað orðið góð stuttmynd, jafnvel frábær klukkutíma löng sýning, en nær ekki einum og hálfum tíma án þess að teygja lopann.

Þýðing Auðar á verkinu er fín. Staðirnir sem nefndir eru í sýningunni, Vesturbærinn, Kópavogur, Garðatorg, eflaust eru þetta staðgenglar fyrir einhver hverfi í London eða hvaða bresku borg sem það var sem Beginning gerist í, en sem slíkir þá ganga þeir alveg upp. Heimur verksins er trúverðugur og samtölin flæða fínt.

Upphaf er ágætis kvöldskemmtun, leikrit í meðallagi, en frábær frammistaða leikarana hífir það upp og gerir mér kleift að mæla með hjartnæmri sýningu, sem er sprenghlægileg framan af en langdregin síðasta hálftímann.

Tengdar fréttir

Leiklist

Krump og gleði sem margir munu tengja við

Leiklist

Upphafið markar upphaf leikársins í Þjóðleikhúsinu