
Ekki hægt að fara í sund og ræktina í Reykjavík
Hertar reglur um smitvarnir hafa tekið gildi á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins 20 manns mega koma saman. Tveggja metra reglan er komin aftur. Skylda er að bera grímu þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra á milli fólks. Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, hárgreiðslustofur og snyrtistofur eru lokaðar. Reglurnar gilda til 19. október.
Þessar reglur gilda bara á höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar er eins metra regla og 50 mega koma saman. Þar hefur stöðum ekki verið lokað.
Mikið álag á Landspítalanum
Starfsmaður á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi fékk kórónuveiruna. Því fór einn sjúklingur og 27 starfsmenn á bráðamóttökunni í sóttkví. Annað starfsfólk þarf að vinna meira á meðan og álagið er mikið.
Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir segir að fólk eigi að hringja í símanúmerið 1700 eða hafa samband við heilsugæslu áður en það leitar til bráðamóttökunnar. Sérstaklega ef fólk er með einkenni COVID-19.
Um hundrað sjúklingar á Landspítalanum þurfa að komast annað til að hægt sé að draga úr álagi á spítalann. Þetta er fólk sem þarf ekki að vera á spítala en hefur ekki komist að annars staðar. Reynt verður að senda 35 þeirra á hjúkrunarheimili.
Aðeins sex Evrópulönd með hærra smithlutfall en Ísland
Aðeins í sex Evrópulöndum eru fleiri smit á hverja hundrað þúsund íbúa en á Íslandi. Það eru Spánn, Frakkland, Bretland, Holland, Belgía og Tékkland.
Upplýsingar um þetta má fá á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu sem er uppfærður á hverjum degi.
Flest ný smit greinast í Tékklandi og svo á Spáni. Í öllum löndunum sex, eins og á Íslandi, hafa sóttvarnaraðgerðir verið hertar.