Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert verður af urðunarskatti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Ríkisstjórnin hefur ákveðið í samráði við sveitarfélögin að falla frá áformum um urðunarskatt. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra á Alþingi á morgun í umræðu um fjármálaáætlun til næstu fjögurra ára.

Áður hafði umhverfisráðherra stefnt að því að setja á urðunarskatt en þau áform mættu mikilli andstöðu, meðal annars hjá stjórnendum sveitarfélaganna og Sorpu.  Þau voru hluti aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og var skattinum ætlað að virka sem hvati til að draga úr magni þess úrgangs sem urðaður er hér á landi.

Þá átti hann að virka sem hvati til að flokka lífrænan úrgang og áætlað var að losun frá úrgangi myndi hafa dregist saman um 28 þúsund tonn af CO2-ígildum árið 2030.

Lagt hafði verið til að upphæð skattsins yrði 15 krónur á hvert kílógramm af urðuðum almennum úrgangi og 0,5 krónur á hvert kílógramm af urðuðum óvirkum úrgangi, sem er til dæmis jarðefni, steypa, flísar, keramik og gler.

Áætlað var að tekjur ríkissjóðs af þessu gætu numið um 2.000 milljónum króna á ári fyrst í stað, en að þær myndu síðan dragast saman í takt við minni urðun.