Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eiga enn eftir að útskrifa um þrjátíu til að mæta álagi

07.10.2020 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Landspítali hefur náð að útskrifa sex sjúklinga í hjúkrunarrými sem hafa lokið meðferð. Stefnt er að því að vísa 35 í önnur úrræði til að takast á við þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins, sem Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra segir í skriflegu svari til fréttastofu að sé líklega að nálgast hámark.

Anna Sigrún segir þó ekki auðvelt verk að finna hjúkrunarrými fyrir þetta fólk en heilbrigðisstofnun Suðurlands og Reykjalundur hafa náð að fjölga rýmum hjá sér, um samtals tíu, sem reynast hjálpleg og hafa verið fyllt af sjúklingum Landspítala sem hafa þó ekki lokið meðferð. Rýmin eru því ekki hjúkrunarrými.

Um 100 sjúklingar hafa lokið meðferð á Landspítala og bíða úrræða utan hans, af alls 500 bráðarýmum. Helmingur þeirra er á bráðadeildum. Útskrift 35 þeirra í önnur úrræði er talið skipta sköpum til að Landspítali geti mætt þriðju bylgju faraldursins. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala, sagði fyrir helgi að tækist það ekki og tilvikum fjölgi með sama hraða og undanfarið skapist vandræði. Undanfarna tvo daga hafa 185 greinst með veiruna innanlands.