Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Aukin virðing fyrir friðhelgi hafarna

07.10.2020 - 20:04
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Haförnum hér á landi hefur fjölgað talsvert undanfarin ár og hafa síðustu tvö verið metár í viðkomu unga. Fólk ber aukna virðingu fyrir friðhelgi hafarna og gætir þeirra sem vitað er um.

Árið 2020 virðist ætla að verða eitt það hagfelldasta fyrir íslenska haförninn sem staðfestar sögur fara af. Frá því að byrjað var að fylgjast skipulega með afkomu arnarstofnsins árið 1959 hafa aðeins einusinni komist fleiri ungar á legg en nú. Það var í fyrra, þegar 56 ungar komust á legg. Í ár komst 51 á legg í 60 arnarbælum.Kristinn Haukur Skarphéðinsson er dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

„Þetta ár er nú bara næst besta varpár arnarins frá því að mælingar hófust fyrir um 60 árum. Það var aðeins í fyrra sem komust upp fleiri ungar.“

Hvað skýrir þetta?

„Það er nú fyrst og fremst hagstætt tíðarfar á þessum viðkvæma tíma sem er í maí og byrjun júní. Þá hafa orðið  þessi afföll á ungum sem hafa stuðlað að lágum varpárangri hingað til“ segir Kristinn.

Viðhorfsbreyting orðið gagnvart erninum

Talið er að stofn hafarna hér á landi sé um 300 fuglar, þar af um 85 pör sem hafa helgað sér óðal. Varptími hafarna er allt frá miðjum mars og fram í ágúst. Á þessum langa varptíma getur vont veður og aðrar truflanir raskað varpinu. Örninn hefur góða aðlögunarhæfni en þrátt fyrir það er stofninn mjög viðkvæmur. Allt frá árinu 1913 hefur hann verið friðaður. Umgengni mannsins við haferni hefur batnað til muna frá fyrri tíð.

„Örninn er búinn að vera strangfriðaður í mjög langan tíma. Hins vegar getum við fullyrt það að menn virði betur friðhelgi arnarins en oft áður. Það hefur örugglega stuðlað að því að varpið hefur gengið betur að jafnaði síðustu ár heldur en fyrir 50-60 árum þegar stofninn var innan við 20 pör.“

Eru einhverjar skýringar á því af hverju menn eru farnir að bera meiri virðingu fyrir þessari friðhelgi?

„Já, það er bara viðhorfsbreyting. Þetta gamla bændasamfélag sem leit  á dýrin fyrst og fremst til að nýta eða eyða, það er að mestu leyti liðið undir lok.“

Stór hluti arnarstofnsins heldur til á vesturhluta landsins. 

„En síðan er kominn sterkur stofn við Faxaflóann og eins er vaxandi varp við Húnaflóann, það eru sjö eða átta pör að þreifa fyrir sér þar en örninn var um allt land hér áður fyrr svo það er töluvert í land enn þá.“ segir Kristinn.