Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ályktun Íslands um mannréttindi á Filippseyjum samþykkt

07.10.2020 - 17:51
epa06052577 Philippine President Rodrigo Duterte (C) gestures during his speech at the Malacanang Palace in Manila, Philippines, 27 June 2017. Duterte has made his first public appearance in a week, celebrating Eid al-Fitr with Muslims at the Malacanang
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Mynd: EPA
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti samhljóða í morgun ályktun Íslands um stuðning samtakanna við uppbyggingu mannréttinda á Filippseyjum. Ályktunin var lögð fram af Íslendingum í samstarfi við stjórnvöld á Filippseyjum í lok síðasta mánaðar og kveður á um að þau skuldbindi sig til að vinna með mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna að umbótum.

Síðasta sumar beittu íslensk stjórnvöld sér fyrir samþykkt ályktunar um mannréttindi á Filippseyjum við litla ánægju stjórnvalda þar í landi. Með ályktuninni lýsti mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu í landinu, hvatti stjórnvöld til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga í nafni herferðar gegn fíkniefnum og krafðist þess að þeir sem stæðu fyrir slíku yrðu dregnir til ábyrgðar. 

Í kjölfarið sagði Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, að Íslendingar gætu ekki skilið samfélagsleg vandamál þar í landi. Engir glæpir væru á Íslandi og Íslendingar sætu bara og borðuðu ís. Þá væri enginn munur á nóttu og degi á Íslandi sem væri vandamál.

Þrátt fyrir að stjórnvöld á Filippseyjum hafi ekki kunnað að meta ályktunina, eða skýrsluna sem henni fylgdi, komst á samtal milli fastanefnda Íslands og Filippseyja í Genf. Niðurstaða þess er ályktunin sem samþykkt var í dag.