
93% smitanna í gær voru á höfuðborgarsvæðinu
Af þeim sex smitum sem greindust utan höfuðborgarsvæðisins í gær voru tvö á Norðurlandi, tvö á Suðurnesjum, eitt á Suðurlandi og eitt á Vesturlandi, að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar samskiptastjóra hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.
Á sunnudaginn greindust 59 smit á öllu landinu og öll nema þrjú voru á höfuðborgarsvæðinu. Á mánudaginn greindust 99 smit og þar af voru 95 á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að á sunnudaginn greindust 94% allra smita innanlands á höfuðborgarsvæðinu, á mánudaginn var hlutfallið 95% og í gær var það 93%.
Sóttvarnaaðgerðir voru hertar á höfuðborgarsvæðinu í gær í kjölfar þessarar þróunar.
Nú eru 795 virk smit á landinu og þau skiptast þannig að á höfuðborgarsvæðinu eru 685 smit, á Suðurnesjum eru þau 22, á Suðurlandi 36, eitt á Austurlandi, fimm á Norðurlandi eystra og þrjú á Norðurlandi vestra, 14 á Vestfjörðum, 21 á Vesturlandi og átta smit hafa verið greind þar sem búseta fólks hefur ekki verið staðfest.