Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

5 rjúpur á mann

Mynd: RÚV / RÚV
Náttúrufræðistofnun metur að rjúpnastofninn þoli að veiddar verði 25 þúsund rjúpur í haust. Í fyrra hljóðaði ráðgjöfin upp á rúmlega 70 þúsund fugla. Ef þessi ráðgjöf gengur eftir þýðir hún að ráðlögð veiði nemi fimm fuglum á hvern veiðimann.

22 veiðidagar

Það styttist í rjúpnaveiðitímabilið. Það hefst 1. nóvember og fjöldi veiðidaga verður væntanlega sá sami og í fyrra, alls 22. 1. nóvember er á sunnudegi. Þá er heimilt að veiða sunnudag, mánudag og þriðjudag. Aðrar helgar má veiða föstudag, laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag. Samkomulag er um að veiðunum verið hagað á þennan hátt í ár og næsta ár nema eitthvað óvænt komi í ljós. Umhverfis- og auðlindaráðherra og Umhverfisstofnun eiga eftir að fara yfir stöðuna og gefa út endanlegan veiðitíma. 

Veiðistofninn sá minnsti í 25 ár

En staðan á rjúpnastofninum er ekkert sérstaklega góð um þessar mundir. Hann er í niðursveiflu um allt Norðurland, á Austurlandi er hann að rísa úr lágmarki. Á Suðvesturlandi er staða stofnsins hins vegar ágæt. Stofninn er líka í vexti á Vestfjörðum. Viðkoma rjúpunnar á Norðausturlandi var afleit að mati Náttúrufræðistofnunar. Meginskýringin er óveðrið sem gekk yfir um miðjan júlí. Það gekk yfir allt Norðurland og þess vegna telur Náttúrufræðistofnun að ástand rjúpnastofnsins sé ekki gott allt frá Strandasýslu í vestri og austur í Norður-Þingeyjarsýslu. Náttúrufræðistofnun hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins og ráðleggur að veiðin verði um 25 þúsund fuglar eða 10% af veiðistofninum. Sú hefur verið reyndin frá árinu 2005 eða eftir að tveggja ára veiðibanni var aflétt.  Ráðlögð veiði í fyrra var 72 þúsund fuglar og áætlað er að skotnar hafi verið um 60 þúsund rjúpur í fyrra. Vegna viðkomubrestsins fyrir norðan, þar sem meginuppeldisstöðvar rjúpunnar eru, er niðurstaða Náttúrufræðistofnunar að veiðistofn rjúpu sé nú sá minnsti frá því að mælingar hófust 1995. Er þá hægt að segja að rjúpnastofninn sé kominn á hættulegt stig? Í sjálfu sér ekki. Þetta er sveiflóttur stofn, segir Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands. Það komi ár þar sem lítið sé af rjúpu og það sé reyndin núna.

„Það fer saman að það er mikil fækkun í varpstofninum út um allt Norðurland og síðan viðkomubrestur á þessu sama svæði í sumar. Meginuppeldisstöðvar rjúpurnar eru á Norðurlandi þar sem hún stendur höllum fæti þessi árin,“ segir Ólafur.

Stofn rjúpunnar sveiflaðist áður í takt upp og niður nokkurn veginn eins um allt land. Nú eru þessar sveiflur mismunandi á vegi staddar eftir landshlutum.  Þó að stofninn fyrir norðan hafi verið á niðurleið síðustu tvö ár sér Ólafur fyrir sér að stofninn þar rétti aftur úr kútnum. Eins og fyrr sagði er talið að stofninn þoli að veiddir verði 25 þúsund fuglar. Miðað við að 5 þúsund veiðimenn fari til veiða eru það 5 rjúpur á mann.