Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tveggja metra regla á ný og hert grímuskylda

06.10.2020 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Tveggja metra regla verður tekin upp á höfuðborgarsvæðinu næstu tvær vikur og grímuskylda hert, samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra. Fallið verður frá undanþágum frá 20 manna samkomubanni nema við útfarir, þar sem 50 mega vera, og í skólastarfi, þar sem 30 mega koma saman. Tiltekinni starfsemi verður gert að loka eins og gert var í vor, en sóttvarnalæknir segist vilja gefa ráðherra kost á að kynna sér tillögurnar áður en hann greinir frá því hvaða starfsemi þar um ræðir.

Auk þessa verður veitingastöðum gert að loka klukkan níu á kvöldin, í stað ellefu eins og nú er.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna sem nú er nýlokið. Blásið var til fundarins vegna mikils fjölda smita, en 99 innanlandssmit greindust í gær og hafa ekki verið fleiri frá því um mánaðamótin mars-apríl. Talsvert fleiri smit greindust í gær en í fyrradag, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að það skýrðist af miklum fjölda sýna. Fram kom á fundinum að áfram yrði tekið mikið af sýnum í vikunni og því væri viðbúið að mörg smit greindust áfram næstu daga. Fimmtán eru nú á spítala, af þeim eru fjórir á gjörgæslu og þar af þrír í öndunarvél.

„Það má búast við töluverðum fjölda með veikindi á næstunni,“ sagði Þórólfur á fundinum. „Faraldurinn virðist vera í veldisvexti.“

Vonbrigði en nauðsynlegt, segir Þórólfur

Þórólfur fór ekki nákvæmlega í saumana á því á fundinum í hverju hert grímuskylda fælist, en tók fram að fyrst og fremst þýddi það að grímunotkun yrði að skyldu í ýmsum tilvikum, í stað þess að tilmælum væri beint til fólks um að nota þær.

„Það eru vonbrigði að við þurfum að grípa til þessara aðgerða – eða að ég þurfi að koma með þessar tillögur,“ sagði Þórólfur, en bætti við að það væri nauðsynlegt í ljósi stöðunnar.

„Það mun taka eina til tvær vikur að sjá árangur af þessum aðgerðum,“ bætti hann við. Þess vegna ætti ekki að koma á óvart ef litlar breytingar sæjust á tölum næstu daga.

Aðgerðirnar eiga sem áður segir að gilda í tvær vikur. Ekki er gripið til þess að herða reglur í skólum. Þar vísaði Þórólfur til þess sem hann kvaðst hafa sagt margoft áður: að börn í leik- og grunnskólum smituðu mjög lítið út frá sér og því væri ekki ráð að vera með mjög íþyngjandi aðgerðir gagnvart þeim og foreldrum þeirra. Á þetta hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sömuleiðis bent.

Geta ekki þegið boð um aðstoð við smitrakningu

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að stöðugt væri nú bætt í smitrakningarteymið. Nú væru þar 75 manns og færi enn fjölgandi. Þetta væru lögreglumenn, hjúkrunarfræðingar og landamærastarfsfólk. Almannavarnir hafi fengið töluvert af skilaboðum frá fólki sem vilji bjóða fram krafta sína við smitrakningu – fyrir það séu yfirvöld þakklát en hins vegar krefjist starfið þess af fólki að það sé hjúkrunarfræðingar eða lögreglumenn og því sé ekki hægt að þiggja slík boð.

Víðir fór yfir tilmæli sem ríkislögreglustjóri hefur beint til íbúa höfuðborgarsvæðisins eins og greint var frá fyrr í dag. Þau eru eftirfarandi:

  • Vera eins mikið heimavið og hægt er.
  • Vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsynlegt er.
  • Takmarka fjölda í búðum, þannig að helst einn úr fjölskyldu fari.
  • Takmarka enn frekar heimsóknir til viðkvæmra hópa.
  • Viðburðahaldarar eru hvattir til að fresta þeim viðburðum sem eiga að fara fram næstu tvær vikur.
  • Jógahópar, gönguhópar, kórar og hjólahópar, sem dæmi, geri hlé á starfsemi sinni næstu tvær vikur.
  • Helst fari aðeins þeir í sund sem þurfi heilsu sinnar vegna.
  • Einnig að allir staðir og verslanir sem opnir eru á höfuðborgarsvæðinu tryggi fjöldatakmarkanir eins vel og unnt er sem og handspritt fyrir alla.

Segir eins metra regluna ekki endilega mistök

Þórólfur var spurður á fundinum hvort það hafi eftir á að hyggja verið mistök að taka upp eins metra reglu í stað tveggja. Hann svaraði því eins og hann hefur áður gert, að það sé hægt að gagnrýna ýmislegt ef horft er baksýnisspegilinn, en sé ekki endilega viss um að þetta hafi verið mistök. Nágrannalönd okkar hafi til dæmis sum hver notað eins metra regluna með ágætum árangri. Aðalatriðið sé að læra af reynslunni.

Víðir brýndi af þessu tilefni fyrir fólki að vera tillitssamt – það væri viðbúið að fólk ætti eftir að gera mistök næstu daga þegar það reyndi að átta sig á nýjum reglum.

Þórólfur tók jafnframt fram á fundinum að veiruabrigðið sem nú greindist í fólki væri eingöngu af einum stofni sem barst hingað 10. ágúst. „Þetta er það afbrigði sem ekki má nefna,“ sagði hann, og vísaði þar til gagnrýni sem heyrst hefur á að veiran hafi verið kennd við franska ferðamenn sem hingað komu og brutu reglur um sóttkví.

Fréttin hefur verið uppfærð.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV