Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Thor Aspelund: Spáin gerði alls ekki ráð fyrir þessu

06.10.2020 - 19:33
Mynd: RÚV / RÚV
Thor Aspelund, prófessor í tölfræði, segir að spálíkan um þróun faraldursins hafi alls ekki spáð þeim mikla fjölda smita sem greindist í gær. Í sjónvarpsviðtali í kvöldfréttum segir hann að fjöldinn komi honum á óvart. 99 smit greindust innanlands í gær.

„Við setjum fram spálíkan þegar við gerum ráð fyrir að faraldurinn sé kominn í stjórn og smitstuðull sé á leið niður og þar af leiðandi muni það leiða af sér að faraldurinn rénar. En það var bara ekki þannig,“ segir Thor. 

Aðspurður hvort fjöldinn í gær gefi tilefni til að ætla að fjöldi smita verði svipaður áfram segir Thor að til þess að spá fyrir um það þurfi að horfa á fyrstu bylgjuna, þá hafi einmitt komið svona há tala og að hún hafi endurtekið sig innan nokkurra daga.

„Auðvitað er þetta áhyggjuefni. Það þarf alltaf að horfa til spítalans, það er auðvitað aðalatriðið að spáin, þótt hún spái ekki endilega rétt fyrir um nákvæmlega fjöldann, þá heldur spáin nokkuð vel fyrir álagið á spítalanum. Maður sér í tölunum að það er mikið af ungu fólki að smitast núna og það leggst ekki eins mikið inn. Þannig að heildarálagið á spítalann kemur nokkuð vel út,“ segir hann.

Aðspurður hvaða áhrif við megum búast við að hertu aðgerðirnar hafi segir Thor að hertar aðgerðir hafi komið á svipuðum tíma í fyrstu bylgjunni og að það taki nokkra daga að sjá áhrifin af þeim: „Við förum ekki að sjá það fyrr en eftir tíu daga eða tvær vikur. Þá vonandi sjáum við sama árangurinn, og að þetta fari að fara niður aftur.“