Sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu lokað á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu lokað á morgun

06.10.2020 - 16:50
Framkvæmdaráð almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að loka öllum sundlaugum á svæðinu á morgun, miðvikudag. Þetta á einnig við um skólasund. Næstu skref verða tekin þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra um aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu lítur dagsins ljós.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, tilkynnti í dag að aðgerðir yrðu hertar á höfuðborgarsvæðinu þar sem margt benti til þess að kórónuveirufaraldurinn væri þar í veldisvexti.

Samkomutakmarkanir verða miðaðar við tuttugu nema í jarðarförum þar sem fimmtíu mega koma saman og í skólum þar sem fjöldinn er miðaður við þrjátíu. Þá hafa forsvarsmenn íþróttafélaga verið beðnir um að fresta öllum æfingum og keppnum næstu tvær vikur. Þetta er þó aðeins bundið við höfuðborgarsvæðið.

Í stað 1 metra reglunnar verður 2 metra reglan tekin upp að nýju og aukin áhersla verður lögð á notkun gríma.  

Nú þegar hafa bæði Borgarleikhúsið og Harpa frestað öllum viðburðum og búast við að fleiri bætist í þann hóp í dag og á morgun.