Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Malbik víða á höfuðborgarsvæðinu stóðst ekki kröfur

06.10.2020 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Malbik sem var lagt á nokkra vegkafla á höfuðborgarsvæðinu í sumar stóðst alls ekki þær kröfur sem gerðar eru í útboði Vegagerðarinnar, hvorki kröfur um holrýmd né um viðnám. Það á meðal annars við um vegkafla á Kjalarnesi þar sem tveir létust í umferðarslysi í júní. Þetta kemur fram í skýrslu sem Vegagerðin birti í dag og byggir á rannsóknum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og gatnarannsóknarstofnunarinnar VTI í Svíþjóð.

Segir að gallinn liggi í framleiðslunni

Í skýrslunni segir að holrýmd skuli vera á bilinu 1 prósent til 3 prósent. Niðurstöður rannsókna á borkjörnum úr vegi sýna að holrýmd í malbikinu hafi verið allt niður undir 0,1 prósent. Þá stóðst malbikið heldur ekki kröfur um lágmarks hemlunarviðnám.

Vegagerðin býður út malbikunina og fyrirtækið Loftorka sá um að leggja það. Loftorka keypti malbikið af fyrirtækinu Höfða sem framleiðir það og blandar. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir ljóst að gallinn á malbikinu liggi í framleiðslunni.

Segir malbikið hafa staðist kröfur um stein- og bindiefni

Ásberg K. Ingólfsson, framkvæmdastjóri Höfða, segist í samtali við fréttastofu ekki telja að misbrestur hafi orðið á blönduninni. „Við teljum að framleiðslan hafi uppfyllt þær kröfur sem koma fram í útboðsgögnum varðandi steinefni og bindiefnisinnihald. Þeim rannsóknum er lokið hjá okkur á þessu,“ segir hann. Aðspurður um holrýmdina, sem samkvæmt skýrslunni er mun minni en kröfur eru gerðar um, segir Ásberg að rannsóknaraðferðin sem mæli holrýmdina taki til mjög lítils efnis í framleiðslunni. „Rannsóknin gefur vísbendingar en það er ekki víst að hún gefi 100 prósent rétta mynd,“ segir hann. Aðspurður um hemlunarviðnám segist hann ekki tjá sig um það. 

Andrés Sigurðsson, framkvæmdastjóri Loftorku, segist í samtali við fréttastofu ekki hafa vitað til þess að skýrslan væri komin út og ekki geta tjáð sig um malbikunina að svo stöddu.

Malbikið var lagt á köflum á Reykjanesbraut, Bústaðavegi, Sæbraut, Kjalarnesi og Gullinbrú. Kaflinn á Sæbraut stóðst kröfur en hinir hafa verið fræstir og nýtt malbik lagt á þá. Enn er til rannsóknar einn kafli á Reykjanesbraut en líklega verður hann fræstur og malbikaður upp á nýtt.