Leiddist vinnan í lundabúð og fluttist til Parísar

Mynd: Steiney Skúladóttir / Aðsend

Leiddist vinnan í lundabúð og fluttist til Parísar

06.10.2020 - 09:18

Höfundar

Steiney Skúladóttir rappari, sjónvarps- og leikkona er mikil flökkukind. Hún hefur ferðast um Asíu og búið í Ástralíu, Bandaríkjunum og París þar sem hún lenti í þeirri leiðinlegu lífsreynslu, þegar hún vann á bar í borginni, að vera rekin úr vinnunni í fyrsta sinn á ævinni. Steiney er tilnefnd sem sjónvarpsmaður ársins á Edduverðlaunahátíðinni sem er á dagskrá RÚV í kvöld.

Í samtali við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2 viðurkennir Steiney að hún sé stolt af sjálfri sér enda finnist sér Edduverðlauna-tilnefningin „ógeðslega skemmtileg.“ Það þykir þó ekki til siðs á Íslandi, að hennar mati, að viðurkenna að maður sé sjálfur stoltur af afrekum sínum. „Við erum svo fá að maður má eiginlega ekki monta sig, það á allt að vera eins og maður hafi bara gert það með hangandi hendi,“ segir hún. Steiney flutti tímabundið til Kaliforníu og þar segir hún fólk ekki hika við að státa af afrekum sínum og viðurkenningum. Hún hefur lært af þeim. „Þar segja allir: Ég er búin að vinna ógeðslega mikið fyrir þessu og er ógeðslega góð í þessu.“ Fyrst var Steiney brugðið yfir sjálfshólinu. „Maður er bara: Má þetta? Sumir dálítið góðir með sig...“ Í dag hefur hún sjálf tileinkað sér þann sið að viðurkenna afrek sín án þess að biðjast afsökunar.

Steiney er tilnefnd fyrir þáttinn Heilabrot sem hún gerði með vinkonu sinni Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur en Steiney hefur verið tíður gestur á skjánum síðan árið 2014. Fram að því hafði hún ætlað sér í læknisfræði en hún tók u-beygju í lífinu og ákvað að verða listamaður eins og megnið af fjölskyldunni. Hún byrjaði í sjónvarpsþættinum Hraðfréttir sem hún var í í tvö ár. Þessa dagana er hún á fullu að skrifa sketsa fyrir sketsaþáttinn Kanarí sem verður frumsýndur eftir áramót og segir hún tímasetninguna ansi heppilega. „Ég held það verði mjög gott fyrir þjóðarsálina að fá smá grín,“ segir hún.

Mysingur og garpur hjá ömmu og afa

Í dagskrárliðnum Fimm valdi Steiney fimm uppáhalds máltíðir sínar í tímans rás og er fyrsta máltíðin mysu-tvenna. Hún man nefnilega fyrst eftir sjálfri sér að borða brauð með mysingi og drekka mysudrykkinn Garp með. „Ég fékk þetta alltaf hjá ömmu og afa og ég man að mér fannst þetta allt í lagi en núna er þetta bara ógeðslegt.“ Hún var mikið í pössun hjá ömmu sinni og afa eftir að foreldrar hennar Halldóra Geirharðsdóttir leikkona og faðir hennar Skúli Gautason leikari skildu þegar hún var eins og hálfs árs.

Sjálfala skiptinemar elda nauta-taco í Ástralíu

Flökkueðlið og ævintýraþrá Steineyjar fór fljótt að segja til sín og 17 ára ákvað hún að gerast skiptinemi og flytja alla leið til Ástralíu. Þar kynntist hún næstu máltíð sem er taco-skeljar sem hún lærði að elda þar af vinkonu sinni frá Dóminíska lýðveldinu. „Við vorum tveir skiptinemar sem bjuggum hjá fjölskyldunni sem hafði eiginlega ekki tíma til að vera með skiptinema því þau voru aldrei heima,“ rifjar Steiney upp. Þær vinkonur þurftu því alfarið að sjá um sig sjálfar og þá kom sér vel að hin stelpan var klár í eldhúsinu, ekki síst í tacoskelja-matreiðslu. „Trikkið er að skera græna papriku og rauðlauk mjög smátt og hnoða saman við nautahakkið áður en þú steikir á pönnunni. Tómatar, ostur og sósa og það var allt og sumt.“

Að lokum eftir margra mánaða afskiptaleysi ákváðu þær saman að óska eftir að fá að skipta um fjölskyldu. Þær fluttu frá bænum Rosebud sem var strandbær og yfir á kúabýli í Gippsland. Þar bjuggu þær með 300 kúm. „Þetta var mikil lífsreynsla,“ segir Steiney.

Pasta með tómatsósu og barþjónamartröð í París

Þegar Steiney var flutt til Íslands kláraði hún MR, ferðaðist um Asíu og fékk svo vinnu í lundabúð sem er að hennar sögn það leiðinlegasta sem hún hefur gert. Í stað þess að dvelja í leiðindunum ákvað hún að flytja til Parísar þar sem föðursystir hennar, Nína Gautadóttir myndlistarkona, er búsett. Í París segir hún að eldamennskumetnaðurinn hafi náð sögulegu lágmarki en hún lét sig stundum hafa það að sjóða pasta með tómatsósu og rifnum osti.

Steiney starfaði í París sem au-pair í barnapössun og fékk svo vinnu á bar. Eftir fjóra daga í vinnu þar fékk hún áfall. „Ég lenti í því í fyrsta skipti að vera sagt upp í vinnu,“ segir hún en viðurkennir að þegar hún líti til baka hafi hún ekki verið góður starfsmaður. „Þetta hefði ekki átt að koma mér á óvart en mér var allt í einu sagt bara: Þú átt ekki að mæta á morgun. Ég var bara miður mín í fimm daga og fór ekki úr rúminu því ég var rekin af bar.“

Reykjavíkurdætur fúlsuðu við „frukt-suppe“

Fjórða máltíðin er pakkasúpa sem Þuríður Blær, hljómsveitarfélagi Steineyjar og vinkona, keypti í Færeyjum þegar sveitin var að spila á tónleikum þar. Þeim var útveguð gisting í afskekktu skólahúsi og það var engin sjoppa eða bensínstöð nálægt svo hægt væri að kaupa mat með góðu móti. Það kom í hlut Blævar að fara með fulltrúum hátíðarinnar í búðarferð sem þeim var boðið að nýta sér. „Margar okkar voru grænmetisætur og vegan og það eina sem hún fann var fruktsuppe sem var í bréfi, þurrt, og það eina sem þurfti að gera var að blanda vatni við,“ segir Steiney en súpan vakti ekki lukku hjá röppurunum. „Við erum enn að gera grín að henni og ég held að enginn hafi fengið sér.“

Hætti að borða kjöt en hámaði í sig sætar kartöflur í Los Angeles

Fimmtu máltíðinni, sætum kartöflum í ofni, kínóa og pönnusteiktum kúrbít, kynntist Steiney í spunanáminu í Los Angeles og segir hún matinn þar mjög gjarnan mjög bragðvondan. Kjötið hafi til dæmis verið uppfullt af hormónum og hún hafi fundið það á bragðinu svo hún ákvað að stíga það skref að hætta að borða kjöt, eða svo gott sem. „Krakkarnir í Kanarí eru reyndar alltaf að gera grín að því að ég sé lélegasta grænmetisæta í heimi,“ segir Steiney sem þrátt fyrir að borða lítið kjöt fær sér stundum til dæmis pulsu og þá er stundum hlegið að henni. „Brauðið þarna er líka mjög vont. Ég á íslenska vinkonu sem fékk glútenóþol á að búa þarna úti.“ Steineyju líkaði samt margt við dvölina í Kaliforníu og eignaðist hún marga kunningja en segir að það hafi verið erfitt að nálgast fólk undir yfirborðinu því fólk var hikandi við að hleypa nýjum vinum of nálægt sér.

Steiney er spennt að fylgjast með verðlaunaafhendingunni og nýtur þess að sjá lækin hrúgast inn á samfélagsmiðlum eftir að hún deildi mynd af sér með tilnefningarskjalið. Hún skammast sín heldur ekki lengur fyrir að hreykja sér af afrekum sínum. „Ég er mjög stolt og hef lagt hart að mér,“ segir hún að lokum.

Eddan 2020 er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20.

Felix Bergsson ræddi við Steineyju Skúladóttur í Fram og til baka á Rás 2. Hér er hægt að hlusta á þáttinn og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Hvaða Reykjavíkurdóttir ert þú?

Tónlist

Þeir sem segja ljóta hluti hafa ekki hlustað

Sjónvarp

„Þetta er ennþá tabú“