Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Gönguleiðin í Stuðlagil styttist um 2 kílómetra

06.10.2020 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Til stendur að stytta gönguleið í Stuðlagil um næstum helming næsta sumar með vegbótum og bílastæði í landi Klaustursels. Eftir sem áður þarf að ganga um þrjá kílómetra til að komast niður í gilið. Fljótsdalshérað hefur hafnað áformum um breiðan uppbyggðan stíg sem gæti orðið of áberandi.

Stuðlagil á Efra Jökuldal er einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Austurlandi. Hægt er að skoða gilið beggja vegna ár, Grundarmegin hafa verið gerðir stigar niður að gilinu og útsýnispallur en til að komast niður í sjálft gilið og sjá innstu dýrð þess þarf að ganga dágóðan spöl hinum megin um land Klaustursels.

Náttúruperla ófriðlýst

Þó að Stuðlagil sé með stærstu og samfelldustu stuðlabergsgöngum landsins hefur svæðið ekki verið friðlýst og uppbygging þar er ekki samræmd. Mikil ásókn er í að skoða svæðið og hafa landeigendur þurft bregðast við. Uppbyggingin er hins vegar vandasöm því framkvæmdir öðrum megin geta spillt ásýnd hinum megin frá, sé ógætilega farið. Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa gagnrýnt gerð útsýnispalls og stiga Grundarmegin en landeigendur þar segja framkvæmdina óumflýjanlega meðal annars til að tryggja öryggi.

Stígurinn verði í samræmi við skipulag

Nú vilja landeigendur Klausturselsmegin gera göngustíg að gilinu meðal annars til að stöðva landskemmdir en á milli eitt og tvö þúsund manns  manns gengu í Stuðlagil á dag þegar mest var í sumar. Styrkur fékkst úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og teiknaður uppbyggður 2,5-3 metra breiður göngustígur með fláum, skeringum og ræsum og sótt um framkvæmdaleyfi. Umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs, treysti sér ekki til að leyfa slíkan stíg þar sem aðalskipulag kveður á um að göngustígar þarna eigi að takmarkast við einfalda stíga og palla til að spilla ekki ásýnd. Aðalsteinn Jónsson ferðaþjónustubóndi á Jökuldal segir í samtali við fréttastofu og farið verði að takmörkunum skipulagsins við stígagerðina. Nú er um 5 kílómetra gangur hvora leið í Stuðlagil Klausturselsmegin en í vetur verður unnið skipulag fyrir veg og bílastæði sem styttir gönguna niður í 3 kílómetra.