Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Forsætisráðherra segir hugmyndir Miðflokks óraunhæfar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hugmyndir Miðflokksins um aðgerðir vegna faraldursins vera algerlega óraunhæfar og spyr hvaða tekjustofn eigi að standa undir greiðslu atvinnuleysistrygginga ef tryggingagjald er afnumið. Þingflokksformaður Miðflokksins segir ríkisstjórnina vanhæfa um að lyfta landinu og koma því áfram.

Fjármálaráðherra mælti fyrir fjármálaáætlun næstu fjögurra ára á Alþingi í morgun og frá klukkan hálftvö hafa ráðherrar staðið fyrir svörum hver um sinn málaflokk. Fyrst í röðinni var forsætisráðherra sem sagði áætlunina byggða á hugmyndum velsældarhagkerfa. Hún sagði af fenginni reynslu frá síðustu kreppu að of mikið aðhald og of mikill niðurskurður gæti dýpkað kreppu. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins sagði það blasa við að ríkisstjórnin þyrði ekki að skera niður vegna kosninga á næsta ári.

„Við hljótum að þurfa að horfa til þess að lækka skatta gera fyrirtækjunum auðvelt með að vaxa afnema tryggingagjaldið þannig að fyrirtækin geti fjölgað starfsmönnum bætt við sig, það er ekki á dagsrká þessarar ríkisstjórnar nei það eru allt aðrir hlutir en það er jafnvel talað um það séu svartsýnni spár framundanvarðandi atvinnuleysi og annað slíkt það er ekki til að auka bjartsýni okkar á þessa ríkisstjórn geti gert nokkuð skapaðan hlut til að lyfta landinu og koma því áfram,“ sagði Gunnar Bragi.

Katrín svaraði því að hún teldi hugmyndir Miðflokksins um aðgerðir vegna faraldursins „algerlega óraunhæfar“. „Afnema tryggingagjaldið? Hvaða tekjustofn á að standa undir atvinnuleysistryggingum? Hvaða tekjustofn á að standa undir fæðingarorlofi eða á bara að skera það niður? Miðflokkurinn þarf að svara því þegar hann kemur hér upp og talar um að afnema tryggingagjaldið hvernig nákvæmlega eigi að fjármagna þau útgjöld sem eru fjármögnuð með þeim skattstofni. Eða á bara að skilja atvinnuleitendur og atvinnulaust fólk eftir úti á guð og gaddinum? Eg trúi því nú ekki að það gæti verið hluti af sóknaráætlun Miðflokksins í þessum málum,“ sagði forsætisráðherrann.