Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ferðin niður Laga-fljótið

Mynd með færslu
 Mynd: Justyna Stachowska - m.i.s.s.

Ferðin niður Laga-fljótið

06.10.2020 - 09:57

Höfundar

Önnur sólóplata Ragnars Ólafssonar var samin í bát á ferðalagi niður Mississippi-fljótið og er plata vikunnar á Rás 2.

Ég held hér á forláta vínyleintaki af plötunni m.i.s.s. sem er önnur sólóplata Ragnars Ólafssonar. Það er áttunda áratugs bragur yfir, hún hefði getað komið út á Island eða Harvest. Söngvaskáldið djúphugula sem hefur frá mörgu að segja og færir okkur sögur og myndir úr hversdeginum í gegnum söng og gítarslátt. Þannig er ímyndin og innihaldið hér er ekkert ofboðslega fjarri þessu, þannig séð.

Ragnar er óþarfi að kynna, þekktastur er hann fyrir veru sína í sveitinni Árstíðir en hann er fjölsnærður og hefur búið til tónlist með Ask the Slave, In Siren, Lightspeed Legend, Different Turns, Sign og hefur farið nokkrum sinnum með Sólstöfum í tónleikaferðalög sem hljómborðsleikari.

Árið 2017 gaf hann út plötuna Urges þar sem hann gerði upp sambandsslit. Sama ár, um sumarið, samdi hann þessa plötu, á meðan hann var á mánaðarlangri siglingu niður Mississippi-fljótið á fljótabátnum Southern Nights með vini sínum, John Holdson.

Urges er lágstemmd plata, hélt innhverfri línu ef svo má segja, enda verið að fara yfir erfið mál í stillu og íhygli. Þetta verk er annars konar, mun fjölskrúðugra. Hvar hún var samin spilar óneitanlega inn í heildaráhrifin, það er amerískur, nett suðrænn blær yfir, eitthvað sem maður finnur einfaldlega fyrir. Og lögin fjalla um ýmislegt sem á daga Ragnars dreif. Skallaernir flugu stundum yfir og þeir fá sína vottun, vinkona í vanda fékk óð til sín og barátta þeirra félagana við fljótið og náttúröflin fær sínar dúsur. Svo er hér hljóðverksljóð, „Seamless“. Ragnar leyfir sér að reyna sig við eitt og annað, þetta er ekki heildstæð plata með rólyndislögum um fljótarómantík, nei, Ragnar leyfir sér að gera alls konar, hvort heldur að velta fyrir sér stöðu sinni í lífinu eða hvort hann þurfi að kaupa sér ný föt.

Fyrsta lagið, „Southern Nights“, er samið til farkostarins og í endann fáum við að heyra kór. Ragnar leysti það sniðuglega, fékk fylgjendur á Fésbókarsetrinu sínu til að að taka upp söng og senda sér. Alls tóku 52 manns frá 11 löndum þátt í kórnum! Tæknin maður. Dálítið drama og epík, sem maður er vanur úr ranni Ragnars. Þessi plata er líka langt í frá lágstemmd. „Needle & Thread“ er með heillri hljómsveit, taktdrifið lag og hressilegt. „Bald Eagles“ er hins vegar ballöðukennt, ljúfsár smíð þar sem Ragnar reynir á þessa fallegu söngrödd sem hann býr yfir. „Message“ og „Deva“ eru drífandi og kraftmikil á meðan „Minor Scratch“ er lítið og ljúft – og áhrifaríkt (flottur söngur hjá Sólveigu Ásgeirsdóttur). „Muddy Waters“ er svo blússkotið – nema hvað! Alls kyns straumar og stefnur í gangi semsagt.

Það er ekki hægt að bera sólóplötur Ragnars til þessa saman. Báðar vel heppnaðar, hvor á sinn hátt. Hér hann frjáls og slakur, glaður og uppáfinningasamur og til í að leika sér og taka snúning, allskyns snúning, með tónlistargyðjunni. Allt fram streymir því hjá Ragnari og ég veit að hann er meira handa okkur undir þilfarinu.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ragnar Ólafsson – m.i.s.s.

Tónlist

Einlægt alþýðupopp

Tónlist

Þegar hjartað springur af harmi

Popptónlist

Urges – Ragnar Ólafsson