Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Biðlar til borgarbúa um að koma ekki út á land

06.10.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar biðlar til íbúa á höfuðborgarsvæðinu um að fara ekki út land þar sem minna er um smit. Hún segir að Akureyringar fylgi reglum og þess vegna sé lítið um smit í bæjarfélaginu.

Ásthildur segist vera sammála sóttvarnalækni um að herða aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu.

„Mér finnst þær mjög eðlilegar þessar aðgerðir og skiljanlegar og hefðu kannski mátt taka gildi fyrr,“ segir Ásthildur í samtali við Óðinn Svan Óðinsson fréttamann.

Alls greindust 99 innanlandssmit í gær en þar af voru 95 á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim 747 sem nú eru í einangrun eru 640 á höfuðborgarsvæðinu.

Ásthildur segist ekki óttast að höfuborgarbúar flykkist út á land þegar aðgerðir verða hertar í borginni.

„Nei ég held að fólk muni bara halda sig heima. Eins og er verið að biðja fólk um að gera. Að sjálfsögðu biðjum við líka fólk um að halda sig heima. Að það sé ekki að fara út á land þar sem minna er um smit. Það er ástæða fyrir því að hér er lítið um smit. Fólk fer mjög varlega. Akureyringar fylgja reglum. Og það er ástæða fyrir því að faraldurinn hefur ekki leikið okkur verr en hann hefur gert hingað til,“ segir Ásthildur.