Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

99 ný kórónuveirusmit og fjórir á gjörgæsludeild

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Metfjöldi kórónuveirusmita í þriðju bylgju faraldursins greindist í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum voru greindust 99 með smit, þar af voru 59 í sóttkví. Þá greindist eitt virkt smit á landamærunum. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir að áfram séu 15 á Landspítalanum, fjórir þeirra eru á gjörgæsludeild og þrír af þeim í öndunarvél.

Ekki hafa svo margir greinst með kórónuveirusmit á einum degi síðan í vor þegar 106 greindust með veiruna þann 24. mars. Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi í gær þar sem veitingastöðum og líkamsræktarstöðum var lokað og fjöldatakmarkanir miða víðast hvar við 20 manns. 

Már segir að ástandið á spítalanum sé stöðugt en heldur stígandi. Hann bendir á að smitin séu hér og þar í samfélaginu, hjá fólki á öllum aldri og í öllum lögum samfélagsins. Hann telur alveg ljóst að það verði fleiri smit á næstu dögum enda komi áhrif af hertum aðgerðum ekki fram strax. „En ef við hegðum okkur vel, förum eftir reglunum og fylgjum einstaklingsbundnum sýkingavörnum þá er það innan marka hins gerlega að við náum þessu niður á næstu dögum.“

Már varar hins vegar við því að það sé ekkert víst að núverandi aðgerðir dugi. „Tölur dagsins eru ekki beint uppörvandi.“ Hann bendir jafnframt á að tölur segi ekki allt, margir sem leiti á spítalann séu með hita eða önnur einkenni og því sé það alltaf fyrsta verk að ganga úr skugga um að viðkomandi sé ekki með COVID og setja hann í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir. Fleiri smit þýði því meira umfang á spítalanum. 

Fréttin hefur verið uppfærð

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV