Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

14 milljónir tonna af plasti á hafsbotni

06.10.2020 - 06:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnst 14 milljónir tonna af örplasti hvíla á botni heimshafanna. Þetta er mat vísindamanna við Vísinda- og rannsóknastofnun Ástralíu, CISRO, byggt á greiningu á borkjörnum sem sóttir voru í set á botni Stóra-Ástralíuflóa, um og yfir 300 kílómetra undan suðurströnd Ástralíu. Sýni sem tekin voru á allt að þriggja kílómetra dýpi benda til þess að allt að 30 sinnum meira plast sé að finna á botni hafsins en fljótandi á yfirborði þess.

 

51 sýni var sótt á sex staði í Stóra-Ástralíuflóa vorið 2017, frá 288 upp í 349 kílómetra frá landi. Minnsta dýpið var 1.655 metrar og það mesta 3.016 metrar. Þegar búið var að þurrka sýnin og greina kom í ljós að í hverju grammi af seti var að meðaltali 1,26 plastögn, undir 5 millimetrum að stærð. Slíkar agnir flokkast sem örplast og eru oftast brot af öðrum og stærri plasthlutum sem molnað hafa niður.

Með alvarlegustu umhverfisvandamálum samtímans

Plastmengun heimshafanna telst til alvarlegustu umhverfisvandamála samtímans og brýnt úrlausnarefni að stemma stigu við henni. Denise Hardesty er leiðandi vísindakona við CISRO og einn af höfundum skýrslunnar um þessa rannsókn, sem birt var í tímaritinu Frontiers in Marine Science.

Í samtali við The Guardian segir hún að svo mikið örplast á hafsbotni á svona afskekktum og fáförnum slóðum og þetta miklu dýpi bendi til þess að plastið sé hreinlega úti um allt, „sama hvar þú ert í heiminum." Þetta þýði einnig að plast sé ekki aðeins á floti á yfirborði heimshafanna og hvílandi á botninum, heldur líka á sveimi alstaðar þar á milli.

„Þetta ætti að fá okkur til að staldra við og hugsa aðeins um heiminn sem við búum í og áhrif neysluvenja okkar á það sem við höfum gjarnan hugsað um um sem ósnortna náttúru."

Bara brot af heildarmagninu

Og Hardesty minnir á, að þótt 14 milljónir tonna kunni að virðast mikið, þá er talan lág miðað við allt það plast sem áætlað er að endi í sjónum ár hvert. Í september birtust í tímaritinu Science niðurstöður rannsóknar sem benda til þess að á milli 19 og 23 milljónir tonna endi ár hvert í ám, vötnum og höfum Jarðar, en önnur og eldri rannsókn sem birt var í sama blaði benti til þess að það væru um 8,5 milljónir tonna. Hardesty viðurkennir líka að niðurstöður þessara nýjustu rannsókna séu ekki óyggjandi, en þær séu byggðar á bestu fáanlegu upplýsingum.