Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Undanþágulyf veitt ef skráð lyf skortir

05.10.2020 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Skráðu gigtarlyfin Salazopyrin og Salazopyrin EN hafa verið ófáanleg síðan í sumar. Þeirra í stað hafa svokölluð undanþágulyf, eða óskráð lyf verið fáanleg. Á vef Lyfjastofnunar kemur fram að hörgull á lyfinu sé vegna framleiðslutengds vanda en ekki gæðamála.

Salazopyrin hefur til að mynda reynst gagnlegt í meðferð við hrygggigt, sem er langvinnur bólgusjúkdómur sem veldur stirðleika í hreyfingum hryggjarins.

Verði skortur á skráðu lyfi getur reynst nauðsynlegt að veita undanþágu til að ávísa lyfjum sem ekki hafa markaðsleyfi hér á landi eða eða lyfjum sem ekki hafa verið á markaði hér en eru þó leyfð.

Að sögn Kjartans Hákonarsonar deildarstjóra samskiptadeildar Lyfjastofnunar fást undanþágulyfin keypt í lyfjaverslunum gegn undanþáguávísun frá lækni. Á vef stofnunarinnar megi finna hvaða lyf séu ekki til á hverjum tíma og ráðleggingar þar að lútandi.

Kjartan segir alltaf einhver lyf skorta, bæði hér á landi og erlendis en yfirleitt finnist lausnir við því. Margvíslegar ástæður geti verið fyrir vöntun á lyfjum, til að mynda aukin eftirspurn, vandamál við framleiðslu eða flutning. Kjartan kveðst búast við að Salazopyrin verði fáanlegt aftur í byrjun nóvember.