Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umdeildur bíltúr forsetans og óvissa um heilsufar hans

epa08718917 Supporters of US President Donald Trump chant 'Four More Years' as they gather outside the Walter Reed National Military Hospital where the president was taken after testing positive for COVID-19, in Bethesda, MD, USA, 03 October 2020. Trump's positive test comes after months of the president playing down the severity of the pandemic that has killed over 200,000 US citizens and more than one million people worldwide.  EPA-EFE/SAMUEL CORUM
Stuðningsfólk forsetans hefur safnast saman við Walter Reed hersjúkrahúsið, þar sem hann hlýtur meðferð vegna COVID-19. Forsetinn gladdi þessa dyggu fylgjendur sína með því að aka framhjá þeim og veifa.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, brá sér í ökuferð í gærkvöld til að veifa stuðningsfólki sínu skammt frá sjúkrahúsinu. Vakti uppátækið mikla kátínu stuðningsfólksins en að sama skapi reiði og fordæmingu jafnt pólitískra andstæðinga sem lækna. Þá hafa nýjar upplýsingar um meðhöndlun forsetans vakið upp spurningar.

Forsetinn hefur borið sig vel í veikindunum og sent frá sér þrjú myndbönd þar sem hann ræðir um líðan sína og reynslu af COVID-19. Í því nýjasta, sem hann birti á Twitter í gærkvöld, segist hann hafa lært mikið um sjúkdóminn síðustu daga, mun meira en nokkur geti lært í skóla. Skömmu síðar tilkynnti hann á sama vettvangi að hann hygðist bregða sér út úr Walter Reed sjúkrahúsinu, þar sem hann er til meðhöndlunar vegna COVID-19, til að kasta kveðju á nokkra „föðurlandsvini." Lét hann svo aka sér nokkurn spöl í forsetabifreið til að veifa stuðningsfólki sínu, sem var samankomið skammt frá spítalanum.

„Ábyrgðarleysið með ólíkindum“

James Phillips,  læknir og sérfræðingur í bráðalækningum sem starfar meðal annars á Walter Reed sjúkrahúsinu, kallar þetta uppátæki forsetans „brjálæði." Hann bendir á að forsetabíllinn sé ekki einungis skotheldur, heldur einnig með eigin, lokuðu lofthringrás til að verja forsetann mögulegum gasárásum. Þetta þýði að þeir menn sem voru með honum í bílnum hafi verið í bráðri hættu og séu það enn.

„Ábyrgðarleysið er með ólíkindum" skrifar Phillips, sem segir alla í bílnum þurfa að fara í 14 daga sóttkví. „Þeir gætu veikst. Þeir gætu dáið. Fyrir pólitískt sjónarspil. Skipað af Trump að hætta lífi sínu fyrir sjónarspil. Þetta er brjálæði."

Þörf á forystu, ekki sýndarmennsku

Hakeem Jeffries, þingflokksformaður Demókrata í fulltrúadeild þingsins tekur í sama streng. „Yfir 205.000 Bandaríkjamenn eru dánir. Við þurfum forystu. Ekki sýndarmennsku," skrifar Jeffries á Twitter. Talsmaður Hvíta hússins, Judd Deere, fullyrðir hins vegar að allar  nauðsynlegar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar og ökuferðin skipulögð í samráði við starfsfólk sjúkrahússins.

Þegar Peter Alexander, fréttamaður NBC í Hvíta húsinu, frétti af ökuferð forsetans, greindi hann frá því á Twitter, að starfsmaður Hvíta hússins hefði sagt honum að forsetafrúin, Melania Trump, hygðist ekki heimsækja eiginmann sinn á sjúkrahúsið, vegna þess að „hún er með COVID-19 og myndi stofna mönnunum sem keyrðu hana þangað í hættu."

Misvísandi upplýsingar og lyfjagjöf sem vekur spurningar

Misvísandi upplýsingar frá læknateymi forsetans um heilsufar hans og framvindu veikindanna hafa líka vakið upp spurningar, ekki síður en lyfjameðferðin sem hann hefur fengið.

Læknar forstans hafa sagt að hann geti jafnvel farið heim í dag, en þá er þess að gæta að heimili forsetans er ólíkt flestum öðrum og hafa sérfræðingar bent á að í Hvíta húsinu sé í raun nánast fullkomin sjúkrahúsaðstaða, þótt aðstaðan sé vissulega enn betri á Walter Reed sjúkrahúsinu.

Sjá einnig: Segja líklegt að Trump verði útskrifaður á morgun

Forsetalæknirinn Sean Conley hélt því fram lengi vel, að sjúkdómseinkenni forsetans væru afar væg og honum heilsaðist vel. Hann viðurkenndi síðar að forsetinn hefði verið töluvert veikari en hann lét uppi í byrjun og meðal annars verið með hita og þurft á súrefnisgjöf að halda.

Sterk lyf og sum á tilraunastigi

Lyfin sem forsetinn hefur fengið vekja líka athygli. Sum þeirra - sem í einhverjum tilfellum eru enn á tilraunastigi - eru einungis gefin fólki sem er mjög alvarlega veikt af COVID-19. Þetta þykir sérfræðingum benda til annars tveggja; að Trump hafi verið mun veikari en gefið hefur verið upp, eða fengið meðferð sem er mun öflugri en þörf krefur og getur þannig jafnvel reynst skaðleg.

Sé hið síðarnefnda tilfellið, segja sérfræðingar sem New York Times ræðir við, er rétt að staldra við og spyrja sig hvort það sé gert að frumkvæði læknanna eða kröfu Trumps sjálfs. Meðal þess sem forsetanum hefur undirgengist er svokölluð einstofna mótefnameðferð; meðferð, sem er enn á tilraunastigi hjá líftækni- og lyfjarisanum Regeneron.

Þá var Trump gefið sterkt steralyf, Dexamethasone, á laugardag, eftir að súrefnismettun blóðsins lækkaði mjög. Sérfræðingarnarnir sem NYT ráðfærir sig við segja þetta lyf notað til að koma í veg fyrir of harkaleg viðbrögð ónæmiskerfisins, sem hafi leitt margan COVID-19 sjúklinginn til dauða. Þetta lyf, segja þeir, er nánast eingöngu gefið mjög alvarlega veikum sjúklingum, þar sem það hefur ekki sýnt sig í að gagnast fólki með vægari einkenni COVID-19 og getir jafnvel verið varasamt.