Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þúsundir mótmæltu niðurstöðum þingkosninga í Kirgistan

05.10.2020 - 19:33
Erlent · Asía · Kirgistan · mótmæli
Mynd: Skjáskot úr myndbandi AP / Sjáskot úr myndbandi AP
Þúsundir söfnuðust saman á götum Bishkek, höfuðborgar Kirgistan og víðar í landinu, í dag og mótmæltu niðurstöðum þingkosninga sem fóru fram í gær. Sextán manns voru flutt á sjúkrahús eftir átök milli mótmælenda og lögreglu.

Þeir tveir flokkar sem fengu langflest atkvæði í kosningunum, Mekenim Kyrgyzstan og Birimdik, þykja hliðhollir forseta landsins, Sooronbay Jeenbekov og telja mótmælendur að svik hafi verið í tafli og að flokkarnir hafi stundað kaup á atkvæðum. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að alþjóðlegir eftirlitsaðilar segi það ekki útilokað að ekki hafi verið staðið rétt að kosningunum og að ásakanirnir veki miklar áhyggjur. 

Sextán flokkar buðu fram en aðeins fjórir þeirra fengu sjö prósent atkvæða, sem er fjöldinn sem þarf til að fá þingmann kjörinn. Þrír þessara flokka þykja hliðhollir forsetanum. Stjórnarandstöðuflokkarnir ætla ekki að viðurkenna niðurstöðu kosninganna. 

Lögregla beitti hvellsprengjum, háþrýstidælum og táragasi gegn mótmælendum í dag. Talið er að um fimm þúsund manns hafi komið saman á Ala-Too torgi í höfuðborginni. Nokkrir þeirra reyndu að brjótast inn í þinghúsið en tókst ekki.