Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þórólfur: „Þetta er allt öðruvísi en í vor“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að faraldurinn sé áfram í vexti og á köflum finnist honum eins og hann sé að fara í veldisvöxt. Aðeins þrír sem greindust með veiruna í gær voru utan höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að fólk sé að smitast á vinnustöðum, í matarboðum hjá vinahópum og á líkamsræktarstöðvum, meðal annars hnefaleikastöð í Kópavogi.

Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi almannavarna klukkan 11 í dag. 59 ný kórónuveirusmit greindust í dag, 15 eru innliggjandi á Landspítala og þar af eru 3 á gjörgæsludeild.

Þórólfur segir því margt hafa bent til þess að hér gæti farið af stað alvarlegur faraldur með alvarlegum afleiðingum ef ekkert yrði að gert. Mikið álag sé á Landspítalann en 15 eru á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu. „Það eru engin merki um að sjúkdómurinn sé eitthvað vægari en hefur verið.“ 

Fyrri aðgerðir skiluðu ekki nægum árangri

Hann segir að aðgerðirnar sem tóku gildi í dag séu íþyngjandi. Bundnar hafi verið vonir við að aðgerðirnar sem voru í gildi áður og beindust aðallega að höfuðborgarsvæðinu myndu nægja til að sveigja niður kúrfuna en það hafi ekki gengið eftir. 

Hann segir margar gagnrýnisraddir hafa komið fram. Ein af þeim sé að aðgerðirnar nái yfir allt landið. „Ég tel það mikið óráð að sleppa einstökum landsvæðum því það gæti komið smit í öðrum landshlutum og við gætum þá endað í eltingaleik við veiruna.“ 

Hann segir að þeim hafi borist mikið af undanþágubeiðnum og hann biður fyrirtæki og einstaklinga að halda að sér höndum varðandi þessar beiðnir og gleyma ekki hvert takmarkið er.  Hann biðlar til landsmanna um að standa saman um þessar aðgerðir, það skipti mestu máli því þannig náist árangur og þannig takist að kveða þennan faraldur niður.

Farið að gæta faraldursþreytu

Hann segir faraldurinn í vexti og það sé mikið álag á heilbrigðiskerfið. Og hann ítrekar að engar vísbendingar séu um að veiran sé eitthvað vægari nú en áður.

Alma Möller, landlæknir, segir að farið sé að gæta á faraldsþreytu og einhverjir kunni að upplifa þessar aðgerðir sem órökréttar. „ Það er þrautseigja og þolinmæði sem gildir.“ Hún segir að besta leiðin til að lifa eins eðlilegu lífi sé að ná tökum á veirunni.  „Samstaðan er besta sóttvörnin,“ segir Alma og fer síðan yfir helstu áherslurnar í einstaklingsbundnum sýkingavörnum.  „Verum heima ef við erum með einkenni.“

Hún hvetur fólk til að vera gott og tillitssamt við þá sem eru í sóttkví og einangrun. Og þeir sem þurfi að vera mikið heima ættu að gera uppbyggilega hluti, hreyfa sig eins og kostur er og vera í sambandi við fjölskyldu og vini.

Tekur undir að þriðja bylgjan sé ófyrirsjáanlegri

Þórólfur segir að það megi alveg gagnrýna það að ekki hafi verið gripið til þessara hertu aðgerða fyrir viku. Það hefði þó ekki skipt sköpum. Mestu máli skipti að ná samstöðu. „En vissulega má gagnrýna að ekki hafi verið gripið til þessara aðgerða fyrr.“ 

Þórólfur tekur undir með Thor Aspelund að þriðja bylgjan sé ófyrirsjáanlegri en sú sem var í gangi í vor. Það sé erfiðara að ná utan um þessa bylgju. „Það er viðbúið að það muni ekki takast að keyra veiruna jafn mikið niður og okkur tókst í vor vegna þess að veiran hefur náð að grafa sig meira niður í samfélaginu. Þetta er allt öðruvísi en þetta var í vor.“ 

Hann segir það þó ánægjuefni að þær skimanir sem hafi verið í gangi hjá Íslenskri erfðagreiningu og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi ekki sýnt margar sýkingar í slembiúrtökum.

Hann segist ekki gera sér grein fyrir því hversu lengi þessar aðgerðir muni gilda.  Hann segist hafa vitað að þessi kafli yrði erfiðari því brestir séu komnir í samstöðuna. Það hafi verið vonbrigði að fyrri aðgerðir hafi skilað nægjanlegum árangri. Því sé ekkert annað í stöðunni en að herða aðgerðir.

Fram kemur á fundinum að rakningateymið hafi fengið upplýsingar um viðskiptavini gegnum kortafyrirtæki til að rekja smit.  Kortafyrirtækin hafi afhent símanúmer hjá viðkomandi sem síðan hafi fengið boð í skimun.

Hann segir að þau séu alltaf að nýta sér meiri þekkingu við að setja á meiri grímuskyldu. Engin rannsókn hafi þó sýnt fram á að grímur á almannafæri komi í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Hann bendir á að þau hafi beðið fólk um að vera eins mikið heima og hugsast getur. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV