Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stuðningur nauðsynlegur fyrir verðmætasköpun næsta árs

05.10.2020 - 17:00
Mynd: Íslandsstofa / Íslandsstofa
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir lífsnauðsynlegt að halda lífi í fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi. Það sé mikilvægt vegna verðmætasköpunar á næsta ári.

Ríkisstjórnin ákvað í tengslum við endurskoðun lífskjarasamningsins að um 6 milljörðum króna yrði varið til að koma til móts við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna COVID-19. Horft yrði til þess að veita beina styrki til að viðhalda lágmarksstarfsemi. Fram hefur komið að þetta nái til fyrirtækja sem tengd eru ferðaþjónustunni og líka til þeirra sem starfa innan skapandi greina. Gert verður ráð fyrir þessum stuðningi í fjáraukalagafrumvarpinu sem verður bráðlega lagt fram. 

Þurfum að sjá útfærsluna

Hvernig horfir þetta við ferðaþjónustunni, eru til mótaðar hugmyndir um hvernig þurfi að bregðast við? Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að stuðningurinn geti verið útfærður á ýmsan máta:

„Hvort sem það er með greiðslu launa, fasts kostnaðar eða hvort tveggja. Það eru dæmi um þetta löndunum í kringum okkur þannig að við þurfum að sjá hver útfærslan verður.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Jóhannes Þór Skúlason

Duga 6 milljarðar

6 milljarðarnir eiga líka að ná til sviðslista. Búist er við að menntamálaráðherra kynni tillögur um hvernig komið verði til móts þá sem hafa farið illa út úr COVID-19. Spurningin er því hvort þessi milljarðar dugi skammt?

„Í hinni þinglegu meðferð þurfum við að skoða hvernig þetta kemur frá ríkisvaldinu og sjá hvernig útreikningarnir eru og hvernig þessu er ætlað að aðstoða. Það er í raun ekki fyrr en þá sem við sjáum hvort sex milljarðar duga. Það er að minnsta kosti gott að vera komin með sex milljarða til að vinna með og svo er bara útfærslan eftir,“ segir Jóhannes Þór.

Aftur skellt í lás

Kráareigendur og eigendur skemmtistaða þurftu að loka í dag vegna fyrirmæla frá sóttvarnayfirvöldum. Að öllum líkindum verður lokað næstu tvær vikurnar. Þetta er í þriðja sinn sem þeim er gert að skella í lás; í vetur, í september og svo núna. Þeir áttu kost á lokunarstyrkjum þegar faraldurinn geisaði í vetur og vor. Jóhannes Þór telur mikilvægt að styðja við bakið á þessum hópi og að sá stuðningur verði fyrir utan 6 milljarðana sem ríkisstjórnin hefur lofað. Hann segir að það sé tvímælalaust komið fordæmi fyrir því að fyrirtæki sem gert sé að loka eigi rétt á einhvers konar stuðningi.

Lífsnauðsynlegt

Jóhannes Þór telur nauðsynlegt að fyrirtæki fái stuðning vegna verðmætasköpunar á næsta ári.

„Það er algjörlega lífsnauðsynlegt. Ekki bara fyrir okkar bransa heldur í raun fyrir verðmætasköpun samfélagsins á næsta ári vegna þess að þetta snýst um að halda fyrirtækjunum á lífi yfir veturinn og verðmætasköpuninni inn í framtíðina. Við erum að selja ferðir til áfangastaða á Íslandi sem eiga að vera á næsta ári. Við erum í raun að selja þær á næstu mánuðum.“