Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarskrártillögur og kosningalög stórmál þingvetrar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarskrártillögur verða stórmál á komandi þingi en ekki verður síður að fróðlegt að sjá hvernig fer með ný kosningalög. Þetta sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, í kvöldfréttum Sjónvarpsins.

Fjármálaráðherra segir vart fordæmi fyrir öðru eins áfalli í hagsögu Íslands og því sem nú ríður yfir vegna kórónuveirufaraldursins. Fjárlög og fjármálaáætlun verða þungamiðja þingstarfa þessa vikuna. Alls eru 205 mál á þingmálaskrá þennan veturinn.

Ólafur segir að plágan og efnahagsleg viðbrögð við henni, þar með talin fjárlögin, verði megináherslan í þingstörfunum í vetur. Hann segir að hingað til hafi verið sæmileg sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu í því tilliti en ágreiningur gæti tekið að aukast.

Hann kveður augljóst að 205 mál komist ekki í gegnum þingið nema með góðri sátt stjórnar og stjórnarandstöðu. Mörg þeirra mála sem fyrir þinginu liggi séu framfaramál sem ætla megi að ekki verði ágreiningur um en komi til málþófs verður erfiðara að koma málum áfram.

Aðspurður segir Ólafur að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni verði stórmál á komandi þingi og fróðlegt að sjá hvernig því máli vindur fram. Auk þess segir Ólafur ekki síður fróðlegt að sjá hvernig fari með ný kosningalög.

Lögð verði fram ný heildarlöggjöf varðandi kosningar til Alþingis, sveitastjórnar, forseta og löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ólafi finnst það sem hann hefði séð af þeim frumvörpum mjög til bóta en hann hafi ekki séð tillögur um jöfnun atkvæðavægis.

Ólafur sagði mögulegt að jafna atkvæðavægi með einfaldri breytingu á kosningalögum, hvort sem þvæ væri jöfnun vægis milli flokka eða kjördæma. „Það verður áhugavert að sjá hvort meirihluti þingsins vill fara í slíkar breytingar fyrir næstu kosnngar,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði að lokum.