Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spyrja sig hvort sóttvarnir í skólum séu nægar

Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Það þarf að skoða í hverjum skóla fyrir sig hvað hægt er að gera til að takmarka röskun á skólastarfi vegna farsóttarinnar, að mati formanns félags grunnskólakennara. Grunnskólakennarar séu hræddir eins og aðrir landsmenn.

Engar hömlur eru á starfi leik- og grunnskóla í nýjum sóttvarnareglum. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir grunnskólakennara hrædda eins og aðra landsmenn nú þegar búið er að lýsa yfir neyðarstigi og rætt sé hvort nægilega miklar ráðstafanir séu gerðar í skólum.

Mikil röskun á skólastarfi vekur upp spurningar

Óvenjumörg börn hafa smitast eða þurft að fara í sóttkví í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir. Skólastarf hefur víða raskast verulega og dæmi um að heilu skólarnir hafi verið lokaðir um tíma. „Og þetta er auðvitað eitthvað sem vekur okkur til umhugsunar um það hvort við þurfum ekki að gera betur í þessu samhengi og minnka allan óþarfa samgang á milli til dæmis fullorðinna og draga kannski lærdóm af því sem gekk vel síðasta vetur,“ segir Þorgerður Laufey.

Minnka áhættuna í stað viðbragða eftir á

Þá var skólum hólfaskipt svo smærri hópar þyrftu þá að fara í sóttkví kæmi upp smit. Spurð að því hvort kennarar myndu vilja sjá harðari aðgerðir í skólum segir hún svarið hvorki vera já né nei. Sóttvarnayfirvöld hafi þegar gefið út skýr skilaboð um að það þurfi allir að leggjast á árarnar. Hver skóli fyrir sig þurfi að skoða hvað sé hægt að gera.

Mikilvægt sé að minnka áhættuna á að heilu skólarnir leggist í sóttkví frekar en að koma með viðbragð eftir á. „Það er enginn að bíða kannski eftir því að það verði sagt eða lögð einhver ein lína. Við getum öll beitt okkar skynsemi og dregið raunverulega fram þau ráð sem við höfum í hverri stofnun fyrir sig og ég held að það sé kannski það sem verði ofan af,“ segir Þorgerður.