Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir fjarnám erfitt og marga fresta útskrift

Mynd með færslu
 Mynd: Þór - RÚV
Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema óttast að nemendur einangrist og flosni frekar upp úr námi en áður vegna minnkandi viðveru í skólum í Covid-faraldrinum. Nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð segir að margir þurfi að fresta útskrift, enda sé oft erfitt að halda sér við efnið í fjarnámi. 

Dæmi um að nemendur hafi aldrei hitt kennara sína

Meirihluti kennslu á framhaldsskólastigi fer þessi misserin fram í gegnum netið vegna kórónuveirufaraldursins. Áhyggjufullir nemendur og foreldrar hafa undanfarið sett sig í samband við Samband framhaldsskólanema og dæmi eru um að nýnemar hafi ekki hitt kennara sína augliti til auglitis.

„Nú erum við með nýnema í framhaldsskólum sem eru að koma inn í nýtt kerfi og hafa ekki kynnst hvorki samnemendum sínum né kennurum eða kerfinu, kennsluháttum. Svo það er önnur staða uppi núna og það er á brattann að sækja,“ segir Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Allur gangur á hvaða búnaður er notaður

Hildur segir Sambandið óttast að brottfall úr skólum geti orðið meira en ella, þar sem nemendur upplifi sig sumir utanveltu. Allur gangur sé á hvernig þeim gangi að sinna fjarnámi, og hvernig búnaði þeir hafi aðgang að.

„Það virðist vera svona allur gangur á því hvaða búnaður er notaður og hversu vel fólk kann á hann. Við höfum áhyggjur af nemendum af erlendum uppruna, nemendur sem eru með einhvers konar fatlanir, nemendur sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og kannski treysta sér ekki til að mæta í skólann en vilja ekki flosna upp úr námi, þannig vissulega höfum við áhyggjur af því, ég held það hafi það allir. Það er félagsleg einangrun sem við óttumst að geti valdið kvíða og jafnvel alvarlegri einkennum,“ segir Hildur.

Námið gengið verr í fjarnámi

Arndís María Ólafsdóttir, varaforseti nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð, segir félagsleg einangrun reyni mjög á framhaldsskólanema.  

„Fólk er náttúrulega að einangra sig mjög mikið og hittir þá minna af fólki. Allt er aðeins erfiðara og maður verður svolítið þreyttur á sjálfum sér. Það er erfitt að geta ekki gert neitt og í rauninni mega ekki gera neitt,“ segir hún.

Arndís segir að margir eigi erfitt með að halda utan um námið í fjarnámi og sjái fram á að fresta útskrfit.

„Ég sjálf náði ekki síðustu önn af því það var svo erfitt fyrir mig að jöggla öllu og koma þessu öllu í strúktúr. Ég held að margir hafi frestað útskrift allavega um önn sko. Það eru alveg nokkrir sem ég veit um sem eru búnir að fresta útskrift um ár. Af því að þett er bara búið að vera að ganga miklu verr í þessu ástandi,“ segir Arndís María.