Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ráðherra vill bæta í Bjargráðasjóð vegna veðurtjóns

05.10.2020 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra telur rétt að ríkið setji aukna fjármuni í Bjargráðasjóð til að koma betur til móts við bændur sem urðu fyrir girðingar- og kaltjóni í vetur. Bændur hafa sótt um styrki úr sjóðnum fyrir tæpan milljarð vegna tjónsins en í sjóðnum eru aðeins 200 milljónir.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurði Kristján um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. „Heyrist mér bændur ekki allir bjartsýnir á að hið opinbera komi að málum með þeim því að ekki hefur verið sett aukið fjármagn í Bjargráðasjóð,“ sagði Þórunn og spurði hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir því. „Því að ekki trúi ég því að bændur eigi að sitja einir uppi með þetta tjón.“

„Sé ekki forsendur fyrir öðru en að slíkt verði endurtekið“

Kristján svaraði því til að í sjóðnum væru 200 milljónir og gert ráð fyrir 8 milljónum frá ríkinu í hann árlega, sem væri augljóst að dygði ekki til eftir ótíðina í vetur. Hann sagði hins vegar að það væri spurning hversu mikið svigrúm væri til að mæta vandanum.

„Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja sig fram um það og mun beina þeim tilmælum til þingsins við meðferð fjárlaga að það verði gert. Eins og háttvirtur þingmaður benti réttilega á eru fordæmi fyrir slíku, árin 2012 og 2013 var kaltjón bætt með sérstakri fjárveitingu, og ég sé ekki forsendur fyrir öðru en að slíkt verði endurtekið í ljósi þeirra miklu hörmunga sem gengu yfir bændur á þessu svæði síðastliðinn vetur,“ sagði landbúnaðarráðherra.

Meta tjónið á 960 milljónir

Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, var áður í eigu ríkis, sveitarfélaga og Bændasamtaka Íslands, en er nú alfarið í ríkiseigu. Umsóknarfrestur í sjóðinn vegna veðursins í fyrra rann út nú um mánaðamót. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum bárust 211 tilkynningar um kaltjón í túnum, samtals upp á rétt tæpa 4.700 hektara, sem eru tæp 42 prósent af ræktarlandi tilkynnenda. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs, segir að kaltjónið sem þar er undir sé reiknað á um 800 milljónir króna.

Svæði Umsóknir Kalnir hektarar Hlutfall ræktarlands umsækjenda
Húnaþing og Strandir 34 445 25,5%
Skagafjörður 21 304 21,7%
Eyjafjörður 18 389 30,4%
Suður-Þingeyjarsýsla 63 1.789 55,7%
Norður-Þingeyjarsýsla 27 593 48%
Austurland 48 1.175 48,4%
Alls 211 4.695 41,5%

Þá bárust 74 tilkynningar um girðingartjón, samtals á tæplega 200 kílómetrum girðinga. Tjónið þar er metið á um 160 milljónir.

Svæði Umsóknir Kílómetrar
Húnaþing og Strandir 19 50,2
Skagafjörður 15 24
Eyjafjörður 12 36,1
Suður-Þingeyjarsýsla 15 34,8
Noður-Þingeyjarsýsla 5 31,2
Austurland 2 3
Suðurland 6 15,7
Alls 74 195

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs, segir að nú verði farið yfir umsóknirnar og stefnt að því að afgreiða þær í nóvember, með það fyrir augum að borga út fyrir árslok. Það verði hins vegar ekki hægt fyrr en stjórnvöld hafi ákveðið hversu mikið verði til skiptanna.