Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðherra, ungliðar og borgarfulltrúi gagnrýna Ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
„Botnlaus kvenfyrirlitning. Og ekki í fyrsta sinn,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um orð sem Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar viðhafði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni á laugardag. Ágúst hefur beðist afsökunar á ummælum sínum.

Ummælin birti ráðherrann á Twitter síðu sinni þar sem hún deildi tísti Lífar Magneudóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna um málið. Í þættinum nefndi Ágúst Ólafur núverandi ríkisstjórn stjórn Bjarna Benediktssonar.

Kristján Kristjánsson stjórnandi þáttarins hafði þá á orði að vanalega væri ríkisstjórnin kennd við forsætisráðherrann Katrínu Jakobsdóttur. Svar Ágústar var að þeir Willum Þór Þórsson þingmaður Framsóknarflokks vissu hver stjórnaði, og það væri ekki Katrín.

Þeir sátu fyrir svörum sem formaður og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis um fjárlög og fjármálaáætlun. Ekki er að heyra að Willum hafi mótmælt þessum orðum Ágústar.

Í tístí sínu segir Líf Magneudóttir Ágúst Ólaf ekki eiga erindi á þing vegna kvenfyrirlitningar sinnar. Í morgun baðst Ágúst Ólafur afsökunar á ummælum sínum. Hann hafi ekki ætlað að gera lítið úr forystuhlutverki Katrínar Jakobsdóttur, hann bæri mikla virðingu fyrir henni, skrifaði hann á Facebook.

Ágúst segir tilgang sinn hafa verið að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn og hve miklu flokkurinn ráði í fjárlögum og fjármálaætlun. Hann segist hafa viljað sjá meiri áherslu á félagshyggju og umhverfismál vegna ábyrgðar Katrínar Jakobsdóttur á ríkisstjórnininni.

Ragna Sigurðardóttir formaður Ungra jafnaðarmanna og borgarfulltrúi Samfylkingar segir á Twitter að gott og gilt sé að biðjast afsökunar. Á hinn bóginn eigi þingmenn eigi ekki að tala eins og Ágúst gerði í útvarpsþættinum. Hún rifjar upp viðbrögð hans þegar trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar áminnti hann, fyrir tæpum tveimur árum, vegna ósæmilegrar hegðunar í garð konu.

Það atvik varð til þess að Ágúst Ólafsson fór í tveggja mánaða launalaust leyfi frá þingstörfum og kvaðst ætla að leita sér faglegrar aðstoðar vegna framkomu sinnar. Ragna segist telja að allt þetta hafi áhrif á stöðu Ágústs í aðdraganda alþingiskosninga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kvaðst ekki vilja tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum hennar.