Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Persónuvernd rannsakar ferðagjöf stjórnvalda

05.10.2020 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Persónuvernd hefur hafið frumkvæðisathugun á ferðagjöf stjórnvalda. Þetta staðfestir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Stofnunin hefur sent erindi til fjármálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og fyrirtækisins sem hannaði smáforritið fyrir ferðagjöfina.

„Fjölmiðlaumfjöllun bendir til þess að í upphafi hafi verið óskað eftir of víðtækum persónuupplýsingum,“ segir Helga.

Allir sem hafa lögheimili á Íslandi og eru fæddir árið 2002 eða fyrr eiga kost á að nýta sér 5.000 kr. ferðagjöf frá stjórnvöldum. Hún var liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustu á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins. Hægt er að nota ferðagjöfina til áramóta.

Fram kom á vef RÚV um miðjan ágúst að hátt í 140 þúsund manns hefðu sótt ferðagjöfina og meirihluti hefði nýtt hana að hluta eða fullu. Mikill meirihluti hafði notað hana á höfuðborgarsvæðinu. Vinsælast hefur verið að nota hana í gistingu og svo ýmis konar afþreyingu.