Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Ólíklegt en alls ekki fráleitt að Trump vinni“

Mynd:  / 
„Það er ólíklegt en alls ekki fráleitt að Trump vinni,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 3. nóvember. Síðustu fjórar vikur kosningabaráttunnar verða mjög spennandi.

 

Þótt Biden hafi nokkuð mikið forskot í skoðanakönnunum á landsvísu segir það ekki alla söguna, því það eru kjörmennirnir sem velja forsetann og því ráðast úrslitin í sveifluríkjunum svokölluðu. Sigurvegarinn í hverju ríki fyrir sig fær alla kjörmenn þess ríkis. Síðast bar Trump sigur úr býtum í Flórída og ryðbeltinu svokallaða, Pennsylvaníu, Wisconsins og Michigan svo dæmi séu tekin og það dugði til sigurs. Skoðanakannanir benda ekki til að hann nái að endurtaka það en allt getur gerst.

Donald Trump hefur nú greinst með COVID-19 og það getur haft mikil áhrif á kosningabaráttuna, hvernig henni verður háttað og ekki síður hvernig kjósendur taka þessum veikindum, hvort hann fær samúðarfylgi eða tapar fylgi. Jair Bolsonaro og Boris Johnson greindust með COVID og fylgi við þá fór upp fyrstu dagana og vikurnar á eftir. Nýjustu kannanir sem birtar eru í dag, benda ekki til þess að Donald Trump sé að hagnast á COVID, nema síður sé. Forskot Bidens hefur ekki verið meira í rúman mánuð. Það eru fjórar vikur í kosningar og alveg óvíst hvaða áhrif veikindin hafa á endanum. Umræðan snýst sem fyrr öll um Donald Trump.

Hillary Clinton var spáð öruggum sigri í kosningunum 2016 en Donald Trump sigraði engu að síður. Nú er staðan ekki ósvipuð. Joe Biden mælist með mun meira fylgi en Trump hefur áður skákað könnunum og staðið uppi sem sigurvegari. Spegillinn ræddi við Eirík Bergmann stjórnmálafræðiprófessor um stöðuna fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV