Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Merkilega breið þjóðlífsmynd á fáum síðum

Mynd: | / Angústúra

Merkilega breið þjóðlífsmynd á fáum síðum

05.10.2020 - 10:55

Höfundar

Skáldsagan Tíkin, eftir kólumbíska rithöfundinn Pilar Quintana, heldur áfram að krefjast svara að lestri loknum, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Inn um lúguna hjá mér kom um daginn ein af þessum reglubundnu sendingum frá forlaginu Angústúru. Það er svo sem ekki frásögur færandi, forlagið það hefur verið duglegt að færa okkur framandi bækur í íslenskum þýðingum, bækur frá Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Þetta er eins og ferskur blær inn í bókmenntaheiminn hér á landi, ekki það að hann sé staðnaður og leiðinlegur, langt í frá, en það er samt ánægjulegt að fá þessi nýju sjónarhorn og raunar er ég nokkuð viss um að hættan á stöðnun væri meiri ef ekki væri fyrir svona innspýtingar erlendis frá.

Til fyrirmyndar er að bókinni fylgir stuttur eftirmáli þýðandans, Jóns Halls Stefánssonar, vel unninn og veitir aukna innsýn í verkið að lestri loknum. Ég saknaði þó einhverrar umfjöllunar um þýðingaverkið sjálft, en það er auðvitað mín sérviska. Þýðingin er greinilega vel heppnuð og þótt ekki sé verið að bera saman við frumtextann velti ég aðeins fyrir mér hvort spænska frumtextans sé mörkuð á einhvern hátt af mállýskum staðar og stéttar. Það er enginn hægðarleikur að þýða slíka texta því einkenni tungumálsins eru bundin við tiltekna staði og jafnvel tíma. Þessi þýðing er, hvað sem því líður, á vandaðri nútímaíslensku.

Tíkin eftir kólumbísku skáldkonuna Pilar Quintana er stutt skáldsaga, nóvella, en eftir lesturinn fannst mér að ég hefði lesið hnausþykka skáldsögu um örlög fátækrar konu á Kyrrahafsströnd Kólumbíu og um leið örlög allra þeirra sem lífið dæmir til að lifa þar í þeirra stétt. Stíllinn samt einfaldur, minnir einmitt á sögur sumra eftirlenduhöfunda, Achebes til dæmis, sem Angústúra hefur líka gefið út. Reyndar kemur fram í eftirmála Jóns Halls að höfundurinn hafi að eigin sögn haft einfaldan stíl Hemingways að fyrirmynd og má það vera og við Íslendingar gleymum ekki eitt augnablik að hann lærði sitthvað af Íslendinga sögum.

Hvað sem þeim vangaveltum líður er ljóst að hún beitir stílnum geipivel því þessi þriðju persónu saga lýsir örbirgð, ömurleika og sárum tilfinningum með stuttaralegum og þurrum hætti og magnar á vissan hátt upp aðstæður og tilfinningalíf fólksins, ekki með því að skýra þetta allt á neinn hátt, heldur með framsetningu eins og ljósmynd væri, við sjáum allt skýrt og finnum fyrir öryggi fjarlægðarinnar, en samt getum við ekki annað en fundið til, ekki síst með söguhetjunni, Damaris. Við sjáum stundum inn í hug hennar, en öðrum persónum er lýst utan frá, oftast með hennar augum og sagan að einhverju leyti eins og blanda af sögu sagðri í fyrstu og þriðju persónu. Þannig að þótt sagan sé að mestu í þriðju persónu sjáum við hana alla frá sjónarhóli Damarisar, lágstéttarkonu á miðjum aldri sem vinnur fyrir sér meðal annars með því að þrífa hús ríks fólks. Eiginmaður hennar Rogelio er dálítið fjarlæg fígúra í sögunni, hún lýsir kostum hans og göllum í gegnum sögumann með sama hætti og öllu öðru er lýst í sögunni.

Einn stærsti draumur Damarisar, eins og margra annarra, er að eignast barn, en í sögutímanum hefur hún gefið upp vonina um að eiga barn með manni sínum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í staðinn, má kannski segja, eignast hún tíkarhvolp sem hún vill ala upp út af fyrir sig. Maður hennar á þrjá hunda fyrir sem hann fer illa með að hennar mati. Sagan hverfist síðan mest um samlíf þeirra, ástir og hatur Damarisar á þessari tík sem tekur upp á ýmsu, þótt ekki megi segja frá því hér. Vissulega er farið aftur í tíma og við fáum býsna greinagóða lýsingu á lífi söguhetjunnar  frá barnsaldri þar sem hún verður fyrir fyrsta áfalli lífsins, áfallinu sem hugsanlega markar hana fyrir lífstíð.

Sagan er allegoría á einhverju sviði og segir okkur aðra sögu með því að segja þessa. Samtímis er hún afskaplega blátt áfram, ekki síst þegar mannlífi fátæka fólksins er lýst, algjörlega málefnalega, sem dæmi má nefna skordýraplágurnar sem fólkið þarf að búa við og gera lúsmýsvæl Íslendinga hlálegt í samanburði. Þetta er aðeins ein af staðreyndum lífsins og þótt fólk reyni að verjast þeim að einhverju leyti er það ekki með neinum dramatískum tilþrifum, það verður bara að taka þessu öllu eins og hverju öðru hundsbiti.

Merkilegt er hvað þessi stutta saga, sem samkvæmt eftirmála Jóns Halls er rituð á farsíma, nær að mála breiða þjóðlífsmynd á þessum fáu síðum. Eftir lesturinn hafði ég á tilfinningunni að ég hefði fylgst með þessu sjálfur og um leið verið að lesa einhverja félagsfræðilega greiningu til að skilja þennan framandi heim sem samt sem áður er svo kunnuglegur. Með þessu er ekki verið að segja að frásögnin sé eins og einhver fræðigrein, þvert á móti rennur hún viðstöðulaust áfram, en upplýsingarnar sem við fáum eru ríkulegar eins og framandi ávöxtur, mangó eða granatepli. Og einhvern veginn ratar sú hugmynd í kollinn á manni að skrifa hefði mátt þessa sögu á Íslandi um fátæka fiskimenn og konur sem þrífa hús yfirstéttarinnar fyrir hungurlús.

En kannski er sagan fyrst og fremst um móðurástina, barneignarlöngunina og líka þá hræðilegu sorg að missa barn, allt þetta kemst fyrir í þessari sögu og það haganlega og mannlega. Vitaskuld liggur eitthvert lag af íroníu hér og þar yfir því sem sagt er svo málefnalega frá, annað væri útilokað, en í grundvallaratriðum er tekist á við stórar spurningar tilverunnar og þeim er ekki svarað listavel með því að láta okkur varpa þeim fram innra með okkur og svara síðan sjálf, eða ekki. Í öllu falli heldur hún áfram að krefjast svara eftir lesturinn.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Barnleysi, óbeisluð náttúra og hörð lífsbarátta