Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kaffihúsum og börum lokað í París

05.10.2020 - 15:57
epa08459923 A waiter wearing a protective face mask  serves people in  'Cafe de Flore' in the Latin Quarter district as bars and restaurants reopen in Paris, France, 02 June 2020. France reopens its bars and restaurants after two months of nationwide restrictions due to the coronavirus outbreak.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
Myndin er tekin á kaffihúsi í París í júní 2020.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Börum og kaffihúsum verður lokað í París og nágrenni í hálfan mánuð frá og með morgundeginum. Með þessu er ætlunin að reyna að stemma stigu við hraðri útbreiðslu kórónuveirunnar.

Veitingahúsum og matsölustöðum verður ekki lokað að sinni ef þau fylgja reglum um sóttvarnir að því er Didier Lallement lögreglustjóri greindi fréttamönnum í París frá í dag. Að hans sögn verður að herða á sóttvarnaraðgerðum, þar á meðal fjarlægðartakmörkunum, þar sem kórónuveirutilfellum, innlögnum á sjúkrahús og dauðsföllum hefur fjölgað hratt að undanförnu. 

Sautján þúsund greindust smitaðir í Frakklandi á laugardaginn var, hið mesta frá því að skimun fyrir veirunni hófst fyrir alvöru í landinu. Að sögn heilbrigðisyfirvalda í París hafa um þrjú þúsund og fimm hundruð greinst að meðaltali að undanförnu, þar af hátt í sex þúsund á mánudaginn var. Fólk hefur safnast saman í stórum stíl á börum og kaffihúsum og lítt skeytt um smitvarnir, svo sem fjarlægðartakmarkanir og að nota hlífðargrímur. Einnig hafa heilbrigðisyfirvöld borgarinnar áhyggjur af fjölda klasasmita í framhalds- og háskólum.

Því er beint til fólks að vera eins lítið á ferðinni og unnt er og að þeir sinni störfum sínum heima sem á því hafa tök.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV