Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Helmingur sjómanna með mígreni - „áhugaverðar tölur“

05.10.2020 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Um helmingur sjómanna þjáist af mígreni og tæplega 90 prósent þeirra sem starfa í greininni hafa orðið sjóveikir. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem lektor við Háskólann á Akureyri gerði í samvinnu við háls, nef- og eyrnalækni hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Sláandi niðurstöður

Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, og Hannes Petersen, háls, nef- og eyrnalæknir, standa að rannsókninni. Spurningar voru sendar til sjómanna sem sóttu námskeið í Slysavarnaskólanum, þá voru sjómenn á Eyjafjarðarsvæðinu fengnir til að svara spurningum. Nanna Ýr segir niðurstöðurnar sláandi.

„Við fegnum svör frá alveg 260 sjómönnum og sáum að það eru bara langtum flestir sem hafa einhvern tíman orðið sjóveikir, hátt í 90% og mjög margir líka þjást af sjóriðu,“ segir Nanna. 

Eiga eftir að rýna betur í ástæður

Niðurstöður sýndu einnig að hlutfall þeirra sem þjást af mígreni eða finna fyrir spennuhöfuðverk er mjög hátt.

„Þetta var tæpur helmingur sem að sem sagt þjáist af mígreni eða spennuhöfuðverk og það er náttúrlega bara mjög áhugaverðar tölur sem að við eigum eftir að rýna betur í og sjá hverjar orsakirnar eru. Það er náttúrlega ýmislegt sem manni getur dottið í hug. Kannski eru það vinnuaðstæðurnar, suðið í kring, sama staða og lítil hreyfing á líkamanum eða eitthvað svoleiðis við eigum eftir að leggjast yfiir ástæðuna á bak við það en þessi tala er vissulega há.“

Nú eru þessar niðurstöður komnar fram, hvað tekur við, hvernig verður unnið úr þessu?

„Núna setjumst við bara yfir og ætlum að skrifa grein rýna betur í niðurstöðurnar og reyna að finna einhverjar orsakir og svoleiðis.“